Viðskipti innlent

Lánaði út á byggingar sem aldrei risu og viðskiptavinir töpuðu öllu

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Jón Þórisson, fyrrverandi forstjóri VBS Fjárfestingarbanka.
Jón Þórisson, fyrrverandi forstjóri VBS Fjárfestingarbanka. Jón Þórisson, forstjóri VBS. Mynd/GVA

VBS Fjárfestingarbanki gaf út skuldabréf út á byggingar sem aldrei risu og voru skuldabréfin síðan framseld til einstaklinga í eignastýringu sem töpuðu öllu sínu. Stærsti vandi VBS, sem á aðeins einn milljarð króna upp í 48 milljarða króna kröfur, er til kominn vegna áhættusamra fasteignaverkefna.

Á fyrsta kröfuhafafundi VBS á fimmtudag kom fram að búið væri að færa ofmetið eignasafn bankans niður um 80 prósent, úr 52 milljörðum í tíu. Af þeim tíu milljörðum eru níu milljarðar króna innstæður í Seðlabankanum og hjá skilanefnd Kaupþings sem eru veðsettar upp í topp og því er aðeins einn milljarður króna til skiptanna fyrir kröfuhafa.



Var í mjög einhæfri lánastarfsemi

Stjórnendur VBS lánuðu háar fjárhæðir til áhættusamra fasteignaverkefna fyrir hrun gegn svo lélegum veðum að þau skila litlu sem engu til félagsins. „Það má ætla að það hafi verið stærstu ástæður fyrir því hversu illa bankinn er staddur. Hann var í mjög einhæfri lánastarfsemi," segir Þórey Þórðardóttir, lögmaður en hún situr í slitastjórn VBS. Hluti af útlánunum voru skuldabréf gefin út á húsbyggingar á lóðum sem aldrei risu.

Skuldabréfin keypt fyrir einstaklinga í eignastýringu

„Við höfum séð þess dæmi að það hafi verið lánað út á fasteignaverkefni þar sem framkvæmdir voru ekki hafnar. Þetta er t.d á Suðurnesjum og Akureyri. Og einstaklingum voru seld skuldabréf inn í slík verkefni og það var fjöldi krafna í þrotabúið, bótakrafna frá einstaklingum vegna mála þar sem fólk er óánægt með hvernig farið var með þeirra fé í eignastýringu," segir Þórey.

Hluti af lánunum sem VBS veitti til áhættusamra fasteignaverkefna var til Engilberts Runólfssonar, athafnamanns og félaga á hans vegum. En félög hans fengu lán út á byggingar í svokölluðu Laugardælalandi sem aldrei risu, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. Fréttastofa reyndi að ná tali af Engilberti í morgun án árangurs.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×