Innlent

Rúður brotnar í Litlu Kaffistofunni

Litla Kaffistofan.
Litla Kaffistofan. Mynd / Ingó J.

Skömmu fyrir klukkan fimm á sunnudagsmorgninum voru brotnar tvær rúður í Litlu kaffistofunni samkvæmt lögreglunni á Selfossi.

Fjórir ungir menn eru grunaðir um verknaðinn en þeir voru horfnir á braut í leigubifreið þegar lögregla kom á staðinn.

Lögregla veit hverjir mennirnir eru og munu þeir verða kallaðir til yfirheyrslu vegna málsins.

Aðfaranótt síðastliðins föstudags var brotist inn í verslunina Kiano við Austumörk 2 í Hveragerði og þaðan stolið tugi lopapeysa af ýmsum stærðum, útvistarfatnaði og sérhönnuðum flíkum.

Þjófurinn braut sér leið inn í verslunina með því að spenna upp útihurð. Ef einhver hefur vitneskju um mannaferðir við verslunina eða nágrenni hennar umrædda nótt er sá beðinn að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.

Hjólreiðamaður varð fyrir bifreið á móts við Breiðumörk 2 í Hveragerði síðastliðið laugardagskvöld. Við það féll hann af hjólinu og slasaðist á höfði og öxl. Maðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæslustöðina á Selfossi til rannsóknar og aðhlynningar. Maðurinn reyndist ekki alvarlega slasaður. Þegar slysið átti sér stað var farið að skyggja en ekkert ljós var á hjólinu né glit og maðurinn var ekki með hjálm.

Lögreglumenn höfðu um helgina afskipti af ökumanni sem var á ferð á Selfossi um helgina.

Grunur vaknaði um að hann væri ölvaður við aksturinn. Þegar hann var beðinn að framvísa skilríkjum rétti hann lögreglumönnum skilríki annars manns og ætlaði með því að blekkja lögreglu. Við nánari skoðun kom í ljós að maðurinn hafði verið sviptur ökuréttindum og mun hann verða kærður fyrir ölvunarakstur, akstur sviptur ökurétti og hegningarlagabrot með því að hafa notað ófalsað skjal í blekkingarskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×