Handbolti

Lund sér ekki eftir því að hafa farið til Löwen

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lund í búningi Löwen.
Lund í búningi Löwen.

Norðmaðurinn Børge Lund mun mæta sínum fyrrum félögum í kvöld þegar Rhein-Neckar Löwen tekur á móti Kiel í risaleik kvöldsins í þýska handboltanum. Lund lék með Kiel fram á síðasta sumar og vann þrjá meistaratitla með félaginu.

Lund tók við leikstjórnandastöðunni hjá Löwen af Snorra Steini Guðjónssyni sem fór yfir til AGK í Danmörku.

Það er allt undir hjá Löwen í kvöld en tapi liðið er endanlega ljóst að það mun ekki eiga möguleika á þýska meistaratitlinum. Vinni liðið aftur á móti leikinn hangir það enn í toppbaráttunni.

Þetta er þriðji leikur liðanna á skömmum tíma. Kiel vann fyrsta leikinn og annar leikurinn endaði með jafntefli.

Löwen hefur verið að ná góðum stöðum í stóru leikjunum en lent í því að tapa niður góðu forskoti og jafnvel tapa leikjum. Það hefur reynst dýrt.







Lund í leik með Kiel.

"Úrslitin eru ekki góð. Við hefðum getað unnið í Flensburg og Hamburg en gerðum það ekki. Við erum því alls ekki sáttir. Ég veit ekki hvað er að klikka hjá okkur á lokamínútunum. Við erum að vinna í þessu og vonandi fara hlutirnir að smella hjá okkur," sagði Lund sem er ánægður í herbúðum Löwen.

"Ég er ótrúlega ánægður hérna. Það er frábært að spila með svona góðu liði sem getur unnið titla. Það er verið að setja saman nýtt lið en það hefur gengið vonum framar. Ég kom hingað til þess að fá að spila meiri sóknarleik og er sáttur."

Leikurinn í kvöld fer fram í hinni glæsilegu SAP-Arena. Uppselt er á leikinn en 13 þúsund manns verða í húsinu.

Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst klukkan 19.45.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×