Innlent

Miðla þekkingu á milli kynslóða

Krakkarnir lærðu hina ýmsu hluti daginn sem ljósmyndara Fréttablaðsins bar að garði, svo sem hekl, prjón og hnútabindingar. Hér eru þær Sóley og Guðrún ásamt leiðbeinendum. fréttablaðið/stefán
Krakkarnir lærðu hina ýmsu hluti daginn sem ljósmyndara Fréttablaðsins bar að garði, svo sem hekl, prjón og hnútabindingar. Hér eru þær Sóley og Guðrún ásamt leiðbeinendum. fréttablaðið/stefán
„Eftir kreppuna er mikið af fjölskyldufólki sem hefur ekki efni á því að senda börnin sín á leikjanámskeið," segir Lovísa Arnardóttir verkefnastjóri um ókeypis leikjanámskeið Rauða krossins. Námskeiðin heita Gleðidagar - hvað ungur nemur, gamall temur. Nafnið er tilkomið af því að leiðbeinendur á námskeiðinu eru að mestu leyti eldri borgarar. Námskeiðin eru haldin í samstarfi við Öldrunarráð Íslands.

Námskeiðin voru haldin í fyrsta skipti í fyrra og var hugmyndin sú að sameina kynslóðir og miðla gömlum gildum og þekkingu á milli þeirra. „Eldri borgararnir miðla þekkingu til barnanna og kenna þeim alls konar hluti," segir Lovísa. Fólkið fékk að miklu leyti að ákveða sjálft hverju það vill miðla og hefur dagskráin verið fjölbreytt. „Hér er til dæmis búið að kenna framsögn og ræðumennsku, hnútabindingar og ljósmyndun." Þá var farið í heimsókn í hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi auk þess sem farið er á söfn. „Svo kennum við skyndihjálp fyrir börn."

Fyrsta námskeiðið var haldið í Kópavogi í liðinni viku og gekk mjög vel að sögn Lovísu. Í næstu viku verður haldið námskeið á Kirkjubæjarklaustri, því næst á Álftanesi og að lokum í Mosfellsbæ. Laus pláss eru á námskeiðin. thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×