Skoðun

Skilanefndasiðferði

Á þeim árum þegar Íslandi var breytt í gróðamaskínu auðjöfra var valdabyggingu samfélagsins einnig umbylt. Nú þegar hrópað er á stjórnmálamenn að stoppa sukkið þá gleymist að gamla valdakerfið er enn við lýði og að ýmsu leyti sama gamla hugarfarið líka. Í þeim valdastrúktúr voru stjórnmál eins konar skúffa í deild viðskiptanna. Eftir standa stjórnmál sem fólk vill nú að séu virkjuð til að bylta en hafa um langa hríð kerfisbundið verið dæmd til lögbundins aðkomuleysis.

Tökum eitt dæmi, skilanefndir. Skilanefndir maka krókinn en þær hafa líka gríðarleg völd og áhrif á hvernig samfélag byggist hér upp, hvað gerist við hvaða eignir gömlu bankanna, hvernig auðnum er skipt og úthlutað. Hvar er dagsbirta slíkra gjörninga og hver ræður yfir skilanefndum? Það er óljóst. FME getur skipað nýjan skilanefndarmann ef einhver hættir. En bara ef einhver hættir. Að öðru leyti virðist FME ekki ráða neitt yfir skilanefndum. Hvað þá með kröfuhafa gömlu bankanna, ráða þeir yfir skilanefndum? Að einhverju leyti því skilanefndir starfa skv. skilgreiningu í umboði kröfuhafa. En kröfuhafar hafa ekki beint boðvald yfir skilanefndum og virðist líka haldið fyrir utan innsta hring. Með öðrum orðum, skilanefndir eru ríki í ríkinu með óljóst lagaumhverfi, óljósa yfirmenn (ef einhverja), nær enga lýðræðislega aðkomu almennings en með gríðarleg völd og auð um að sýsla. Gamla ósýnilega höndin ræður ríkjum og fær myndarþóknun fyrir, eða hvað?

Nú þarf að gera hina ósýnilegu hönd sýnilega og setja henni reglur. En við hljótum jafnframt að biðla til ábyrgðarkenndar fólks í landi þar sem fjöldi launþega missir vinnu, velferðarkerfi er skorið niður, heimili eru í skuldafjötrum. Eða hvernig er það á „nýja Íslandi", eru það bara stjórnmálamenn sem allt í einu eiga að „redda málum" eftir að kerfisbundið er búið að taka frá þeim lýðræðislega aðkomu, eða þarf samfélagið allt að hugsa sinn gang, líka skilanefndir? Skilanefndasiðferði þarf að þola dagsljósið.

Höfundur er alþingismaður.




Skoðun

Sjá meira


×