Lífið

Rekur hótel á slóðum Sopranos-fjölskyldunnar

Magnús Guðbergur, eigandi Hr. Hinsegin-keppninnar, rekur nú lúxusíbúðahótel í Jersey eftir að hafa misst vinnuna sem flugþjónn í Kaupmannahöfn.
Magnús Guðbergur, eigandi Hr. Hinsegin-keppninnar, rekur nú lúxusíbúðahótel í Jersey eftir að hafa misst vinnuna sem flugþjónn í Kaupmannahöfn.
„Til að byrja með var ég sérlegur aðstoðarmaður Jarls Haugedal en svo var ég gerður að hótel­stjóra,“ segir Magnús Guðbergur Jónsson. Hann er nú hótelstjóri á lúxusíbúðahótelinu NYC-JC sem er á besta stað í Jersey. Frá hótelinu er útsýni yfir alla skýjakljúfana á Manhattan og Frelsisstyttuna og segir Magnús þetta vera einstakt, að horfa yfir Hudson-ána og yfir til New York. „Þeir sem eru staddir í New York sjá ekki þetta.“

Magnús vakti mikla athygli fyrr á þessu ári þegar hann kom til Íslands og hélt keppnina Hr. Hinsegin í Þjóðleikhúskjallaranum en hann hafði keypt opinbera réttinn að þessari keppni. Sjálfur keppti Magnús í Mr. Gay Europe árið 2008 og hafnaði í öðru sæti. Og til að gera langa sögu stutta varð sú þátttaka til þess að hann er nú hótelstjóri í Jersey City. „Ég kynntist eigandanum, Jarl Haugedal, í Mr. Gay World þar sem hann sat í dómnefnd.

Þetta er frekar lítill hópur í kringum þessa keppni og þegar ég missti vinnuna sem flugþjónn og bjó í Kaupmannahöfn þá hafði hann samband við mig og bauð mér þessa vinnu,“ útskýrir Magnús sem tók henni fegins hendi.

Hótelið er í nágrenni við Sopranos-hverfið svokallaða en þar voru hinir víðfrægu mafíu-sjónvarpsþættir teknir upp. Jersey gerir töluvert út á þá staðreynd en Magnús viðurkennir að hann hafi aldrei verið mikill aðdáandi þeirra. „En ég verð að bæta úr því og kíkja á þessa staði.“ Í blaðagrein um hótelið í norska Séð og heyrt kom fram að fjöldi frægra hafi gist á hótelinu og nægir þar að nefna Robert de Niro og Beyoncé. Magnús segist ekki enn hafa rekist á stjörnu enda sé háannatímabilið hjá Bandaríkjamönnum liðið. „Nú erum við bara að taka á móti fólki frá Skandinavíu.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.