Viðskipti innlent

Baugur og tengdir aðilar fengu hátt í þúsund milljarða

Baugur Group stendur upp úr þegar kemur að stórum áhættulánum bankanna á árunum fyrir hrun. Þegar mest lét skuldaði Baugur og tengd félög hátt í þúsund milljarða króna hjá stóru bönkunum þremur miðað við gengi dagsins í dag.

Rúmlega helmingur af eiginfjárgrunni bankanna þriggja var undir í lánveitingum til Baugs og tengdra fyrirtækja. Lán til Baugs samstæðunnar námu yfir 10% af heildarútlánum móðurfélaga Kaupþings, Glitnis og Landsbankans.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir að áhætta allra bankanna vegna Baugs Group hafi verið gríðarleg. Glitnir hafi borið mestu áhættuna vegna hópsins, ef horft sé til hlutfalls af eiginfjárgrunni bankans. Aðrir af stærstu hópunum sem fengu lán hjá bönkunum voru allir stórir hluthafar í bönkunum. Baugur Group hf. og tengdir aðilar skulduðu 85,5% af eiginfjárgrunni Glitnis.

Hjá Kaupþingi námu skuldbindingar Baugs Group 42,3% af eiginfjárgrunni og hjá Landsbankanum var hlutfallið 68,8%. Svipaða sögu er að segja af lánveitingum Straums Burðaráss til Baugs Group, en hlutfallið er þó eilítið lægra þar. Baugur Group og tengd félög voru stærsti viðskiptavinur íslensku bankanna.

Rannsóknarnefnd Alþingis telur að samþjöppun áhættu hjá íslensku bönkunum hafi verið orðin hættulega mikil þó nokkru fyrir fall þeirra. Bæði eigi þetta við um lánveitingar til ákveðinna hópa innan hvers banka og jafnframt að sömu hópar hafi myndað stórar áhættur í fleiri en einum banka. Af þeim sökum hafi kerfisleg áhætta vegna útlána verið orðin veruleg. Skýrasta dæmið um þetta sé Baugur Group og fyrirtæki tengd þeirri samsteypu.

Í öllum stóru bönkunum og Straumi hafi Baugshópurinn verið orðin of stór áhætta. Segir í skýrslu nefndarinnar að það sé ámælisvert að áhættustýringar bankanna hafi leyft þessari áhættu að byggjast upp. Sömu sögu megi segja um Exista, Björgólf Thor Björgólfsson , Björgólf Guðmundsson og Ólaf Ólafsson, þó áhætta vegna þessara aðila hafi verið nokkru minni en Baugshópsins.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×