Viðskipti innlent

Alvarlegur trúnaðarbrestur á Logos

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Guðmundur J. Oddsson stýrði skrifstofu Logos í Lundúnum.
Guðmundur J. Oddsson stýrði skrifstofu Logos í Lundúnum.

Alvarlegur trúnaðarbrestur varð þess valdandi að Guðmundur J. Oddsson, einn eigenda lögmannsstofunnar Logos og fyrrum stjórnarmaður í West Ham, lét af störfum hjá stofunni. Guðmundur var valinn einn af 40 athyglisverðustu erlendu lögfræðingunum í Bretlandi af tímaritinu Lawyer árið 2007.

Guðmundur J. Oddsson var einn af eigendum Logos og stýrði skrifstofu lögmannsstofunnar í Lundúnum, en Logos er stærsta lögmannsstofa á Íslandi með yfir fjörutíu lögmenn og skrifstofur í Reykjavík, Lundúnum og Kaupmannahöfn.

Guðmundur var á árinu 2007 valinn einn af athyglisverðustu erlendu lögfræðingunum í Bretlandi af vikuritinu The Lawyer, sem er fagrit breskra lögfræðinga, en blaðið birti þá lista yfir þá fjörutíu útlendu lögfræðinga sem blaðið taldi að hefðu látið mest að sér kveða. Guðmundur var í stjórn West Ham fyrir Björgólf Guðmundsson og var lögmaður Ástralans Steve Cosser, sem á síðasta ári ætlaði að kaupa Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Óskari Magnússyni og meðreiðarsveinum hans.

Logos hefur verið í umræðunni í vetur vegna húsleita sem framkvæmdar hafa verið á skrifstofum lögmannsstofunnar í Efstaleiti vegna rannsókna á málum umbjóðenda stofunnar. Meðal mála sem tengjast Logos er rannsókn embættis sérstaks saksóknara á kaupum sjeiksins frá Katar, Al Thani, á fimm prósentna hlut í Kaupþingi haustið 2008. Guðmundur hefur réttarstöðu grunaðs manns vegna þeirra rannsóknar, en hann var í stjórn Q Iceland Finance ehf. félagi sjeiksins sem keypti hlutabréfin hinn 25. september 2008. Eftir því sem fréttastofa kemst var Guðmundur ekki látinn hætta af þeirri ástæðu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var tölvupóstur sendur á starfsmenn í febrúar síðastliðnum þegar Guðmundur lét af störfum og sú skýring gefin að trúnaðarbrestur hefði orðið milli hans og annarra eigenda og því hefði það orðið samkomulag um að Guðmundur léti af störfum. Samkvæmt heimildum fréttastofu er um alvarlegan trúnaðarbrest að ræða, en ekki fékkst upp gefið í hverju hann væri fólginn.

Ekki náðist í Guðmund J. Oddsson þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Gunnar Sturluson, framkvæmdastjóri Logos, sagði í samtali við fréttastofu í febrúar síðastliðnum að enginn tölvupóstur hefði verið sendur og ekki hefði verið um trúnaðarbrest að ræða. Það stangast á við áreiðanlegar heimildir fréttastofu.

Eigendur Logos skiptast nú á að stýra skrifstofunni í Lundúnum með tímabundinni viðveru, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×