Erlent

Smokkafargan á Samveldisleikum

Óli Tynes skrifar

Það var óvenjumikið brölt og vandræði í kringum Samveldisleikana þetta árið. Í Samveldisleikunum taka þátt fyrrverandi nýlendur og yfirráðasvæði Breska heimsveldisins sem fengu sjálfstæði hvert af öðru upp úr síðari heimsstyrjöldinni. Þetta eru alls 54 lönd. Meðal þeirra má nefna Ástralíu og Bangladesh, Kanada og Kenya, og Suður-Afríku og Sri Lanka.

Barist við rottur

Leikarnir voru haldnir í Delhi á Indlandi að þessu sinni, en þeim lauk í gær. Minnstu munaði að þeim yrði aflýst þegar í ljós kom að aðstaðan þótti ekki mönnum bjóðandi. Einhver lýsti henni svo að íþróttamennirnir þyrftu að vaða aur og drullu til herbergja sinna og berjast við rottur um svefnpláss þegar þangað væri komið.

Það tókst þó að kippa þessu í lag þannig að leikarnir fóru fram. En borgaryfirvöld í Delhi sitja uppi með talsverðan fjárhagsvanda. Sjöþúsund ungir og hressir íþróttamenn bjuggu saman í sérstöku hverfi sem hafði verið tekið frá fyrir þá.

Graðir íþróttamenn

Frá þessu hverfi kom svo gríðarlegt magn af notuðum smokkum að öll frárennsli í borginni stífluðust. Borgaryfirvöld þurftu því að ráða her manna til þess að moka burt smokkunum. Þessi smokkaher var við störf dag og nótt. Hann vann í akkorði og reikningurinn er því himinhár. Breska blaðið The Guardian talar um milljarða króna.

Forseti Samveldisleikanna sér þó björtu hliðina á málinu: „Það er þó jákvætt að þáttakendur stundi ábyrgt kynlíf og noti smokka."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×