Fastir pennar

Stál milli þings og þjóðar

Þorsteinn Pálsson skrifar
Dómsmálaráðherra lét reisa grindur úr stáli til aðskilnaðar þings og þjóðar meðan forsætisráðherra flutti stefnuræðu sína í byrjun vikunnar. Ugglaust var það rétt mat eins og á stóð.

Grindurnar hafa vikið en engu er líkara en stálið milli fólksins og Alþingis sé þarna enn. Ríkisstjórnin fær stöðugt nýjar spurningar. Auð svarblöðin safnast upp. Nú þarf ríkisstjórnin að svara því hvernig hún ætlar að komast til fólksins á ný.

Varaþingkona VG lýsti þeirri skoðun í stefnuumræðunni að ríkisstjórnarskipti væru eins og forstjóraskipti í fyrirtæki. Stjórnarandstaðan ætti því að sýna nýjum herrum hollustu. Ugglaust skrifast það á reikning reynsluleysis að lýsa opinskátt svo ólýðræðislegri hugsun.

Hvað sem því líður hefur ríkisstjórninni síðustu daga tekist að ákveðnu marki að búa til þá ímynd að þjóðfélagsvandinn liggi fremur í gagnrýni stjórnarandstöðunnar en innbyrðis ágreiningi stjórnarþingmanna. Að því leyti hefur stjórninni heppnast að snúa umræðunni sér í hag á ný. Vandinn er eftir sem áður sá að ímynd og veruleiki fara ekki alltaf saman.

Segja má að krafa almennings standi nú á stjórnarandstöðuna. Til þess er ætlast að hún hjálpi stjórninni úr vandræðunum. Það er ekki óeðlileg krafa. Hana þarf að taka alvarlega. Hitt er álitamál hvernig og á hvaða vettvangi stjórnarandstaðan svarar því kalli.



Venjulegar leikreglur

Eftir leikreglum þingræðisins fer meirihluti Alþingis einn með framkvæmdavaldið og hefur þar óskoruð völd. Minnihlutinn er útilokaður frá áhrifum á þeim vettvangi. Á móti kemur að minnihlutinn hefur stöðu á Alþingi til að gagnrýna og kynna hugmyndir sínar að lausnum. Standi ríkisstjórn frammi fyrir svo stórum vanda með landsstjórnina eða einstök afmörkuð verkefni að hún ráði ekki við þau með eigin þingmeirihluta á hún þrigga kosta völ:

Einn er sá að sitja og taka ábyrgð á óbreyttu ástandi. Annar er sá að fara frá. Sá þriðji er að bjóða stjórnarandstöðunni eða hluta hennar að ríkisstjórnarborðinu og deila völdunum. Skuldavandi heimilanna sem nú brennur heitast á ríkisstjórninni er ekki afmarkað mál heldur órjúfanlegur hluti efnahagsstefnunnar í heild. Fumið er ekki til orðið vegna skorts á hugmyndum. Pólitíski vandinn er ekki orðinn jafn alvarlegur og raun ber vitni fyrir þá sök að ráðherrana skorti vilja til að finna lausn.

Kjarni málsins er annar. Hann skýrist af því að ríkisstjórnin hefur ekki málefnalegan meirihluta fyrir heildstæðri efnahagsstefnu og getur því ekki slegið botn í málið. Þegar þannig stendur á getur samvinna á breiðum grundvelli því aðeins orðið raunhæf að allir sem að henni koma sitji við sama borð og með sömu stöðu.

Í þessu ljósi er ekki unnt að ætlast til þess að stjórnarandstaðan taki sæti í undirnefnd ríkisstjórnarinnar án þess að hafa jöfn völd og áhrif. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa alfarið hafnað samvinnu á þeim grundvelli.

Þá er aðeins einn eðlilegur vettvangur fyrir stjórnarandstöðuna til að koma sjónarmiðum sínum fram. Það er Alþingi. Þar fer umræðan fram á jafnræðisgrundvelli í samræmi við þingstyrk.

Hér þarf ríkisstjórnin að velja og hafna. Hún hefur einfaldlega hafnað því að deila völdum til að ná samstöðu.



Vítin eru til að varast þau

Forsætisráðherra hefur nú tekið vel í tillögur Hagsmunasamtaka heimilanna. Dómsmálaráðherra hefur lofað mjög umfangsmiklum viðbótarráðstöfunum.

Rétt er í þessu ljósi að líta á samskiptaferil ríkisstjórnarinnar gagnvart erlendum ríkjum, alþjóðasamtökum, stjórnarandstöðu og hagsmunaaðilum. Eftir aðeins sautján mánuði blasir þetta við:

Ríkisstjórnin yfirtók samstarfssamninginn við AGS. Hún hefur alfarið svikið ákvæði hans um skjótar aðgerðir á sviði orkufreks iðnaðar. Ástæðan er ágreiningur í eigin þingliði.

Ríkisstjórnin hefur tvisvar gert bindandi samkomulag við ríkisstjórnir Bretlands og Hollands um lausn á Icesave. Hún gat ekki staðið við undirskrifir sínar vegna andstöðu í eigin þingliði.

Ríkisstjórnin gerði stöðugleikasáttmála við ASÍ, SA og fleiri hagsmunasamtök. Hún hafði ekki stuðning í eigin röðum til að efna sáttmálann. Hann er því úr sögunni.

Ríkisstjórnin skipaði sáttanefnd um sjávarútvegsstefnu. Þegar sátt hafði tekist lýsti formaður sáttanefndarinnar því yfir að sáttin væri bara innan nefndarinnar. Hún væri ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum með öllu óviðkomandi. Ástæðan er sú að ríkisstjórnin hefur ekki meirihluta í eigin röðum til að standa við samkomulagið.

Að þessu virtu er eðlilegt að ríkisstjórnin sýni fram á að eitthvað hafi gerst í hópi stuðningsmanna hennar sem geri það líklegt að unnt sé að rétta henni hjálparhönd án þess að þeir sem það geri verði sjálfir ábyrgir fyrir áframhaldandi ringulreið og upplausn.

Vítin eru til að varast þau.








×