Lífið

Guðmundur dómari á World Beer Cup - yfir 3.000 bjórar dæmdir

Guðmundur Mar Magnússon er margverðlaunaður bruggmeistari Ölgerðarinnar en hefur nú staðið vakt dómara á heimsmeistaramóti bjórs í Chicago.
Fréttablaðið/Vilhelm
Guðmundur Mar Magnússon er margverðlaunaður bruggmeistari Ölgerðarinnar en hefur nú staðið vakt dómara á heimsmeistaramóti bjórs í Chicago. Fréttablaðið/Vilhelm

„Ég þurfti sem betur fer ekki að smakka þá alla, en alls dæmdi ég bjórtegundir í níu af níutíu flokkum," segir Guðmundur Mar Magnússon, efnafræðingur og bruggmeistari hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar.

Guðmundur er fyrstur Íslendinga kallaður til dómarastarfa á World Beer Cup, eða heimsmeistaramóti bjóra, sem nýlega var haldið í Chicago. Að þessu sinni voru metnir 3.330 bjórar frá 44 löndum, en keppt var í 90 flokkum.

Aðeins þeim allra bestu sem öðlast hafa virðingu í faginu hlotnast sáheiður að taka sæti í dómnefndinni. „Ölgerðin hefur reglulega tekið þátt í heimsmeistaramótinu og unnið þartil verðlauna. Eftir síðustu keppni var leitað til mín um að dæma bestu bjóra veraldar, en áður þurfti ég að leggja fram meðmælendur og efnismat," segir Guðmundur sem sjálfur er margverðlaunaður bruggari.

Hans þekktasta afurð er vafalaust Egils Gull sem hlaut silfurverðlaun á heimsmeistaramótinu 2008 og Egils Lite sem fékk gullverðlaun 2006. Nýjustu veigar hans, Polar Beer, hrepptu að þessu sinni bronsverðlaun í flokknum International Style Lager þar sem valið stóð á milli 58 bjórtegunda.

„Bjór er endalaus flóra og möguleikarnir ótakmarkaðir. Í grunninn eru tvær tegundir sem fara eftir því hvort gerið flýtur upp í topp tanksins eða sest á botninn eftir gerjun. Þannig er öl með toppgeri en gerið sest til botns í lageröli. Undir þessum tveimur tegundum eru svo ótal undirflokkar og hægt að búa til endalausar útfærslur af bjór," segir Guðmundur og játar að starf bruggmeistarans sé bæði margþætt og flókið, en bruggmeistaramenntun sína hlaut hann í Danaveldi þar sem krafist er háskólaprófs í efnafræði eða efnaverkfræði.

„Það felst mikil hugsun í því að brugga bjór og aðferðirnar geysiflóknar. Velja þarf saman hráefni sem kallar fram lit og bragð og þar sem enginn sykur finnst í bjór, annar en sá sem kemur úr maltkorni, þarf að vinna það á afar nákvæman hátt svo sykurinn nýtist til gerjunar," segir Guðmundur sem valdi sér efnafræði á háskólaárunum vegna áhuga á viðfangsefninu en sóttist síðar eftir bruggmeistaranámi eftir að hafa sinnt gæðaeftirliti hjá Ölgerðinni um tíma.

„En ég hafði engan sérstakan áhuga á bjór fyrr en ég kom hingað og er nú orðinn mikill bjóráhugamaður sem að sjálfsögðu skemmir ekki fyrir. Í keppninni fer smökkunin þannig fram að við fáum ómerkt bjórsýni úr hverjum flokki og drekkum þau, en aldrei svo mikið að menn verði drukknir, þótt maður finni örlítið fyrir áhrifum. Galdurinn er að fara ekki yfir strikið, en bjór er dæmdur í þremur lotum þar til einn stendur eftir sem sigurvegari. Því er ekki hægt að benda á einhvern einn ákveðinn bjór sem besta bjór í heimi því sigurvegararnir koma úr öllum flokkum."

Að sögn Guðmundar stendur íslenski bjórinn sig vel á heimsvísu en Íslendingar eru með þeim yngstu í faginu.

„Fremstir í heiminum eru þó sennilega Þjóðverjar og svo Bandaríkjamenn, en þeir eru í fararbroddi í svokölluðu „micro brewery" sem nú fer sem bylgja um heiminn. Það eru í raun lítil brugghús og algeng á veitingastöðum sem vilja brugga sínar eigin bjórtegundir og afbrigði. Ölgerðin er þar enginn eftirbátur og í smábrugghúsinu Borg hafa bruggmeistarar nú einstaka aðstöðu til að vinna við frekari þróunar- og tilraunastarfsemi í bjórgerðinni."

thordis@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.