Lífið

Verðmyndunin var öll fölsk –hér var aldrei alvörumarkaður

Styrmir Gunnarsson er sestur í helgan stein sem ritstjóri Morgunblaðsins en hefur skrifað tvær bækur á hálfu ári, auk þess að ritstýra vefriti Evrópuandstæðinga.
Styrmir Gunnarsson er sestur í helgan stein sem ritstjóri Morgunblaðsins en hefur skrifað tvær bækur á hálfu ári, auk þess að ritstýra vefriti Evrópuandstæðinga.
Styrmir Gunnarsson er kominn í hóp afkastamestu rithöfunda eftir að hann komst á eftirlaunaaldur og lét af störfum ritstjóra Morgunblaðsins. Hann hefur nú sent frá sér tvær bækur á hálfu ári. „Hrunadans og horfið fé" heitir sú seinni og er útlegging Styrmis á þeim atriðum sem hann telur að skipti mestu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Hann las skýrsluna á einni viku og skrifaði bókina á annarri. Hún kom í búðir í gær, útgefin af Bjarti.

„Það sem kom mér mest á óvart þegar ég las þessa skýrslu var hvernig bankarnir hafa stundað viðskipti með hlutabréf í sjálfum sér. Það kom mér gersamlega í opna skjöldu hvað þetta var víðtækt. Ég hafði gert mér grein fyrir að það væri reynt með ýmsum ráðum að halda uppi verði á hlutabréfum í fyrirtækjum sem voru skráð á markað en ekki að það væri unnið að því með svona skipulögðum hætti. Mér finnst þetta eiginlega mestu tíðindin í skýrslunni."

Verðmyndunin var fölskNiðurstaða þín er að hér hafi aldrei verið til alvöru hlutabréfamarkaður.

„Í ljósi þess að verðmyndun á þeim hlutabréfamarkaði sem hér var starfræktur hefur verið algerlega fölsk þá er ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að hér hafi ekki verið neinn alvöru markaður. Verðmyndunin var fölsk, bankarnir voru ekki bara að hafa áhrif á verð hlutabréfa í sjálfum sér og hver í öðrum. Þeir sem voru stærstu þátttakendur í viðskiptalífinu hafa unnið að því með einhverjum svipuðum aðferðum og bankarnir notuðu með eigin bréf og kannski að einhverju leyti með aðstoð bankanna."

Athugasemdir án aðgerðaHvers vegna fékk gervihlutabréfamarkaður að þrífast hér árum saman?

„Þetta er náttúrulega hin stóra spurning sem við hljótum sem þjóð og samfélag að spyrja okkur að. Það er mjög athyglisvert að lesa lýsingu skýrslunnar á starfsemi Fjármálaeftirlitsins. Þetta stjórnsýsluapparat sinnti með formlegum hætti því sem því bar að sinna, gerði athugasemdir og skrifaði skýrslur um hitt og þetta en fylgdi ekki sínum niðurstöðum eftir af nægilega mikilli festu og hörku. Hvers vegna gerði Fjármálaeftirlitið það ekki? Það er hin stóra spurning. Var það vegna þess að það hefur ekki nægilegan pólitískan bakstuðning til að fylgja þessu fast eftir? Eða bara fámennið, kunningjasamfélagið og tengsl á milli manna? Mér finnst erfitt að finna svör við þessum spurningum og verð að viðurkenna að ég á engin skýr svör við þeim. Ég held að þetta sé partur af skýringunni. Þarna er veikleiki í okkar samfélagi sem er smátt og smátt að koma fram."

Annað atriði sem Styrmir ræðir hvað mest um í bókinni er umfjöllun rannsóknarnefndarinnar um innistæðutryggingar, tilskipun ESB þar að lútandi og lögleiðingu tilskipunarinnar hér á landi. Hann segir að þarna sé loksins búið að vinna vandaða og ítarlega lögfræðilega úttekt á því máli.

Óskiljanlegt„Það er gersamlega óskiljanlegt hvernig á því stendur að íslenska stjórnkerfið hafi ekki látið taka saman svona ítarlega lögfræðilega greinargerð eins og þarna birtist um þessa tilskipun og þýðingu hennar á íslenska stjórnkerfið snemma á árinu 2008 og jafnvel fyrr," segir hann. Nefndin taki af öll tvímæli um hið stóra deilumál í íslensku samfélagi síðustu misseri, Icesave-málið: „Við Íslendingar sem þjóð berum ekki ábyrgð á þessum skuldbindingum. Og það er náttúrulega afskaplega veik stjórnsýsla sem ekki hefur dregið þessar röksemdir fram fyrr en núna að rannsóknarnefndin gerir það."

Gallað frumvarp GylfaÞú setur skýrsluna í samhengi við nýtt stjórnarfrumvarp um fjármálafyrirtæki sem Alþingi er með til meðferðar, segir að það sé gallað og kallar eftir þverpólitískri samstöðu um nýja löggjöf. Hverjir eru þessir gallar og í hverju á sáttin að felast?

„Ég tel að það sé algjört grundvallaratriði að skilja á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Það var fjárfestingarbankastarfsemin sem setti íslenska bankakerfið um koll. Það er margvísleg reynsla af þessu í öðrum löndum. Eftir kreppuna í Bandaríkjunum í byrjun 20. aldarinnar var bannað að reka viðskiptabanka og fjárfestingarbanka undir einum hatti. Ég tel að svona bann eigi að taka upp hér en það er alls ekki gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi Gylfa Magnússonar.

Ég hef reynt að spyrjast fyrir um það hvernig á þessu standi. Mér er sagt að rökin hafi verið þau að ef þetta yrði gert væru ekki til nægilega stórir bankar til að þjóna íslenskum fyrirtækjum. Þetta eru nákvæmlega sömu rök og voru notuð hér fyrir áratug. Bankarnir væru svo litlir að þeir gætu ekki sinnt stórum íslenskum fyrirtækjum. En ég spyr: Hvar eru þessi stóru, íslensku fyrirtæki í dag sem bankarnir geta ekki þjónað? Þau eru horfin, þau eru ekki lengur til. Ég tel að þetta sé algjört grundvallaratriði."

Næstu bækur um kalda stríðið og SjálfstæðisflokkinnUm hvað verður næsta bók? Ertu byrjaður á henni?

„Ég er búinn að velta því fyrir mér lengi að skrifa um kalda stríðið á Íslandi. Mér finnst æskilegt að lýsa viðhorfum minnar kynslóðar til kalda stríðsins. Mér finnst yngri kynslóðir eiga eitthvað erfitt með að skilja okkur," segir Styrmir. „Svo hef ég líka áhuga á að skrifa eitthvað um innri málefni Sjálfstæðisflokksins á undanförnum áratugum, sem ég hef fylgst vel með."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.