Innlent

Talið ólíklegt að það snjói meira í vetur

Krókusar í snjónum Krókusar koma snemma upp ár hvert og þola vel smá hret. Fréttablaðið/GVA
Krókusar í snjónum Krókusar koma snemma upp ár hvert og þola vel smá hret. Fréttablaðið/GVA
„Þetta er ekki einu sinni síðbúið páskhret þetta er bara falleg motta sem verður horfin í síðasta lagi á morgun,“ sagði Hjörtur Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, þegar Fréttablaðið hafði samband í gær og spurði um aprílsnjóinn.

„Hann er að leggjast í sunnanátt, það fer að rigna seinnipartinn á morgun [í dag] og verður vætusamt sunnanlands næstu daga. Sunnanátt þýðir hlýindi fyrir norðan og austan, það má búast við allt að þrettán stiga hita um helgina á Norðausturlandi,“ segir Hjörtur sem telur ólíklegt að það snjói meira í vetur. „En það er aldrei að vita, þetta er auðvitað bara spá.“

Hjörtur segir skammvinnt hret ekki hafa áhrif á gróðurinn, jafnvel þó að sum tré hafi verið farin að bruma. Undir þetta tekur Valborg Einarsdóttir, garðyrkjufræðingur og framkvæmdastjóri Garðyrkjufélags Íslands.

„Það er í raun miklu erfiðara fyrir gróðurinn ef það er mikill þurrakuldi og vindur, smá snjór gerir ekkert ógagn,“ segir hún og bendir á að þrátt fyrir að gróður hafi verið farinn lítillega af stað þá hafi verið svo kalt undanfarið að snjórinn hafi ekki verið gróðrinum áfall. „Það hafa ekki verið þær sveiflur í hitafari í vetur að þær séu slæmar fyrir gróðurinn.“

sigridur@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×