Talið er að gjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum hafi numið 155 milljörðum króna í fyrra. Það er liðlega tuttugu prósenta aukning , að teknu tilliti til gegnisþróunar. Álíka margir koma til landsins um Reykjavíkurflugvöll og með Norrænu um Seyðisfjörð.
Þetta kemur fram í samantekt Ferðamálastofu um ferðamannaþjónustuna, sem byggð er á tölum Hagstofunnar. Ekki er búið að reikna út hlut ferðaþjónustunnar í heildarútflutningstekjum þjóðarbúsins í fyrra, en árið áður nam hluturinn rétt tæpum sautján prósentum. Útlit er fyrir að allar þessar stærðir fari hækkandi í ár.
Fram kemur að breskir ferðamenn dreifast lang best allra þjóða yfir árið, og eru Noðrurlandabúar í öðru sæti og Bandaríkjamenn í því þriðja. Sem dæmi um hið gagnstæða má nefna Ítali og Spánverja, sem koma nær eingöngu í ágúst.
Þá verkur athygli að tæplega 14 þúsund erlendir ferðamenn koma til landsins um Reykjavíkurflugvöll, sem skýrist af Færeyja- og Grænlandsfluginu auk einkavéla. Þetta er álíka fjöldi og kemur með Norrænu till Seyðisfjarðar.
Aðeins 1.600 koma um Akureyrarflugvöll og 150 um Egilsstaðaflugvöll. Lang flestir koma um Keflavíkurflugvöll, eða 465 þúsund.