Viðskipti innlent

Ekki fjallað um virkjanaleyfi vegna ónægra upplýsinga

Ingimar Karl Helgason skrifar

Orkustofnun fjallar ekki um virkjanaleyfi fyrir HS orku fyrr en fyrirtækið hefur fært henni frekari gögn um nýtingarþol jarðhitasvæðisins úti á Reykjanesi. Málið hefur verið í höndum HS orku síðan í mars.

HS orka fékk nýlega til landsins gufuhverfil, sem ætlunin er að nota við Reykjanesvirkjun. Fyrirtækið pantaði hverfilinn fyrir tveimur árum, en hann mun vera sérsmíðaður fyrir svæðið úti á Reykjanesi. Þessi viðbótarorka á siðan að fara til álvers í Helguvík.

Reykjanesvirkjun hefur verið starfrækt frá árinu 2006. Þar eru framleidd 100 megawött af raforku, en ætlað er að auka vinnsluna um 50 megawött með nýja hverflinum. Virkjanaleyfi er fyrir hundrað megavattavinnslunni, en HS orka hefur sótt um virkjanaleyfi vegna nýja hverfilsins.

Orkustofnun veitir virkjanaleyfi. Í athugasemdum við matsskýrslu benti stofnunin meðal annars á óvissu um hversu mikla nýtingu svæðið þoli. Óvissa sé fyrir hendi um jarðhitakerfið, meðal annars vegna þess hversu lítil reynsla sé af nýtingu á svæðinu; vinnslan sem fylgi núverandi virkjun sé ekki komin í jafnvægisástand. Með öðrum orðum efast stofnunin um að svæðið þyldi frekari nýtingu.

HS orka hefur hins vegar talið að svæðið gerði það, svo sem kaupin á hverflinum bera með sér, en hann kostaði tvo milljarða króna.

En málið er í höndum HS orku. Orkustofnun óskaði eftir því snemma á árinu að fyrirtækið færði frekari rök um nýtingargetu svæðisins. HS orka hefur frá í mars unnið að því, meðal annars borað frekari holur sem þykja að mati HS orku sýna fram á getu svæðisins. Niðurstöðum hefur ekki verið skilað til stofnunarinnar.

Það mun eiga að gerast í næsta mánuði. Fyrr fjallar Orkustofnun ekki um virkjanaleyfið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×