Fastir pennar

Krónan sem kúgunartæki

Þorvaldur Gylfason skrifar
Færeyingar og Danir hafa í reyndinni notað evruna sem gjaldmiðil frá upphafi 1999, án þess að færeyskir útvegsmenn eða aðrir hafi séð ástæðu til að kvarta undan því fyrirkomulagi. Danir hafa kosið að negla gengi dönsku krónunnar við evruna með aðeins örsmáum frávikum. Gengi dönsku krónunnar hefur með öðrum orðum verið haldið föstu á genginu 7,46 danskar krónur á hverja evru frá 1999 með bakstuðningi Seðlabanka Evrópu. Engan bilbug er að finna á Dönum. Sveiflurnar hafa aldrei numið meira en 1-2 dönskum aurum upp eða niður. Ekkert agaleysi þar. Færeyska krónan er jafngild dönsku krónunni. Gengisbinding dönsku krónunnar við evruna nær því einnig til Færeyja - og Grænlands.

Stöðugt verðlag innan Evrópu­sambandsins er sameiginlegt keppikefli aðildarlandanna. Aðild að ESB felur í sér skuldbindingu um að taka upp evruna, þótt síðar verði. Danir kusu þó eins og Bretar og Svíar að halda í þjóðmynt sína um sinn. Líklegt virðist, að Danir taki upp evruna fyrr en síðar. Færeyingar sýna engin merki um, að þeir vilji rjúfa myntbandalagið við Danmörku og þá um leið við ESB. Næsta víst má telja, að Færeyingar haldi í evruna, taki þeir sér fullt sjálfstæði. Varla getur þeim þótt ferill Íslands í verðlags- og peningamálum eftirbreytni verður eftir allt, sem á undan er gengið.

Rökin með og á mótiEin helztu rökin fyrir upptöku evrunnar eru þau, að krónan er liðið lík og á sér varla viðreisnar von, úr því sem komið er. Krónan styðst nú við ströng gjaldeyrishöft og myndi hrynja, væri höftunum aflétt. Krónan hefur frá 1939 veikzt um 99,95 prósent gagnvart dönsku krónunni. Verðbólgan, sem var bæði orsök og fylgifiskur gengisfallsins, gróf undan efnahagslífinu. Ekki hefur þó tekizt að kveða verðbólguna alveg niður, þar eð hagstjórnin hefur verið veik og Seðlabankinn hefur ekki heldur reynzt verki sínu vaxinn. Þannig er einnig ástatt um ýmis önnur lönd, til dæmis í Austur-Evrópu og Afríku. Þess vegna leggja Eystrasaltslöndin og önnur ný aðildarlönd ESB allt kapp á að taka upp evruna sem fyrst.

Helztu rökin gegn upptöku evrunnar eru í fyrsta lagi þau, að Íslendingar þurfi á eigin mynt og sveigjanlegu gengi að halda til að draga úr innlendum hagsveiflum, þar eð þær séu frábrugðnar hagsveiflum í Evrópu. Sérstaða Íslands er þá talin stafa einkum af sjávarútvegi, þótt hann standi nú á bak við aðeins sjö prósent af landsframleiðslu. Staðan hefur breytzt. Útvegurinn skiptir efnahagslífið nú minna máli en áður, þar eð öðrum atvinnuvegum hefur vaxið fiskur um hrygg. Hagsveiflan á Íslandi hefur frá 1994, þegar Ísland gekk inn á Evrópska efnahagssvæðið, færzt miklu nær hagsveiflunni í Evrópu, svo sem fram kemur í nýrri doktorsritgerð Magnúsar Bjarnasonar um Ísland og Evrópusambandið. Þessi niðurstaða Magnúsar rímar við reynsluna annars staðar að. Aukin viðskipti milli landa draga úr sérstöðu hvers um sig og þá einnig úr sérstöðu hagsveiflna í einstökum löndum.

Hin höfuðrökin gegn upptöku evrunnar eru þau, að aflagning krónunnar feli í sér fullveldisafsal, þar eð gengisfellingar með gamla laginu standi stjórnvöldum þá ekki lengur til boða. Ein höfuðhugsjón Evrópusamstarfsins er þó einmitt að dreifa fullveldinu á völdum sviðum, svo sem í peningamálum. Þessi þáttur málsins hefði að réttu lagi átt að vefjast fyrir Þjóðverjum á sínum tíma og gerði það, þar eð þeir höfðu sín peningamál á þurru og tóku áhættu með því að deila peningastjórninni með öðrum þjóðum með slakari feril í peningamálum að baki. Sameiginleg mynt ætti miklu síður að vefjast fyrir Íslendingum svo illa sem Seðlabankanum hefur farizt stjórn peningamála úr hendi. Þeir, sem heimta óskorað sjálfstæði í peningamálum, eru margir í rauninni að heimta að fá að halda áfram að nota krónuna sem kúgunartæki til að geta með reglulegu millibili notað gengissig krónunnar til að flytja fé frá launafólki til útvegsfyrirtækja.

Bundnar hendurEvran veitir enga allsherjartryggingu fyrir lítilli verðbólgu. Til dæmis bjuggu Evrulöndin Grikkland og Írland við nokkru meiri verðbólgu 1999-2008 en Sviss og Svíþjóð utan evrusvæðisins. Eigi að síður eru rökin að baki evrunnar býsna sterk. Lönd, sem leggja eigin mynt til hliðar, afsala sér með vitund og vilja réttinum til að fella gengið með gamla laginu og hleypa verðbólgu þannig á skrið. Þau kjósa heldur að binda hendur sínar til að knýja á um agaðri hagstjórn og agaðri samninga um kaup og kjör. Verðbólga á sér þó ýmsar uppsprettur aðrar en gengisfall, svo að evran ein leysir ekki allan vanda. En hún hjálpar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×