Innlent

Samkomulag um samstarf í fötlunarfræði

Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, og Ólafur Þ. Harðarson, forseti Félagsvísindasviðs HÍ. Mynd/Kristinn Ingvarsson.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor HÍ, Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, og Ólafur Þ. Harðarson, forseti Félagsvísindasviðs HÍ. Mynd/Kristinn Ingvarsson.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, undirrituðu í dag tvo samstarfssamninga um kennslu og rannsóknir á sviði fötlunarfræða við Háskóla Íslands. Markmið samninganna er að efla fræðastörf á sviði fötlunarfræða og styrkja þannig kennslu, rannsóknir, framþróun og stefnumörkun á fræðasviðinu og í málefnum fatlaðs fólks.

Samstarfssamningarnir fela í sér að Öryrkjabandalag Íslands kostar hálft starf lektors í fötlunarfræðum til tveggja ára og veitir jafnframt sex miljóna króna framlag til rannsókna á félagslegum og efnahagslegum aðstæðum og mannréttindum fatlaðs fólks, að því er fram kemur í tilkynningu frá HÍ.

Þar kemur fram að til samstarfsins sé stofnað í tilefni af 50 ára afmæli Öryrkjabandalags Íslands á næsta ári en á þá verður Háskóli Íslands 100 ára. Með samningum þessum vill Öryrkjabandalagið efla samstarf og tengsl við fræðasamfélagið, stuðla að frekari rannsóknum og framþróun í málefnum fatlaðs fólks og styrkja fræðilegan grundvöll að stefnumótun og ákvörðunartöku í þessum mikilvæga málaflokki.

Samningarnir taka báðir gildi næstkomandi fimmtudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×