Viðskipti innlent

Fimm félög til viðbótar áminnt og sektuð

Kauphöllin hefur áminnt og sektað fimm félög til viðbótar fyrir að hafa ekki birt ársreikninga sína fyrir árið 2008 innan réttra tímatakmarkana. Hafa því alls 10 félög fengið slíkar áminningar og sektir það sem af er árinu.

Kauphöllin hefur því áminnt sautján fyrirtæki opinberlega og lagt fjársektir á sextán upp á samtals 24 milljónir króna frá áramótum. Allt síðasta ár voru þrjú fyrirtæki áminnt vegna brota á reglum Kauphallarinnar og jafn mörg sektuð vegna þeirra.

Félögin fimm sem nú voru sektuð og áminnt eru Teymi, Íslensk afþreying, Kögun, Atorka og Milestone. Sektin nemur 1,5 milljónum kr. hjá þeim nema Atorku þar sem sektin er ein milljón kr.

Nýlega voru fimm önnur félög áminnt og sektuð um 1,5 milljón kr. Það voru Stoðir, Nýsir, Landic Property og Exista sem og Egla sem var sektað um eina milljón kr.

Félögin beittu öll fyrir sig undanþáguákvæði til að hliðra sér hjá birtingu ársreikninga. Þau eru öll ýmist í gjaldþrotameðferð, greiðslustöðvun eða í endurskipulagningu og eiga í stífum viðræðum við lánardrottna. Þá eru þau öll með skráð skuldabréf í Kauphöllinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×