Viðskipti innlent

Bjarni fær 800 milljónir afskrifaðar

Bjarni Ármannsson.
Bjarni Ármannsson. MYNd/Stefán

Gliltnir þarf að afskrifa rúmar 800 milljónir króna vegna láns sem Bjarni Ármannsson, fyrrverandi forstjóri bankans, tók til kaupa í norrænu fasteignafélagi. Skilanefndin tók fasteignafélagið yfir og seldi með miklum afföllum.

DV fullyrðir í dag að Bjarni hafi komist að samkomulagi við skilanefnd Glitnis um niðurfellingu á rúmlega 800 milljóna króna skuld eignarhaldsfélagsins Imagine Investments sem eru í eigu Bjarna. Samkvæmt heimildum fréttastofu er þetta rétt, nema að það var slitastjórn gamla Glitnis sem sá um samkomulagið. Ekki er þó enn búið að afskrifa skuldina. Bjarni segist í frétt DV hafa tekið lán hjá Glitni í lok árs 2007 til að fjármágna kaup sín á tólf prósenta hlut í Glitni Property Holding fyrir 970 milljónir króna, þar af hafi um 714 milljónir verið lán frá Glitni. Þá var liðið hálft ár síðan hann lét af störfum fyrir bankann, en virðist þó ekki hafa átt í vandræðum með að fá himinhá lán á þessum fyrrverandi vinnustað sínum.

Þar sem kaup Bjarna fóru fram í gegnum eignarhaldsfélag er hann ekki í persónulegri ábyrgð fyrir láninu, sem er eingöngu veitt gegn veðum í hlutabréfunum sjálfum. Samkvæmt heimildum fréttastofu tók skilanefnd Glitnis yfir bréf Bjarna í Glitni Property Holding, sem Glitnir banki átti auk þess helming í. Skilanefndin seldi síðan þetta norræna fasteignafélag skömmu síðar. Ekki fékkst uppgefið hvað skilanefndin fékk fyrir sölu bréfanna - en það mun þó ekki hafa verið nein draumaniðurstaða. Bjarni kveðst í DV hafa komist að samkomulagi við bankann, hann hafi borgað eitthvað - hversu mikið þetta eitthvað er vill hann ekki upplýsa - restin, líklega um 800 milljónir króna sitji eftir í gamla Glitni.

Þess má geta að Bjarni seldi hlutabréf sín í Glitni þegar hann lét af störfum sem forstjóri, og var þá talið að hann hefði fengið uppundir sjö milljarða króna fyrir bréfin. Auk þess fékk hann myndarlega starfslokagreiðslu.

Þess má einnig geta - fyrir þá sem renna hýru auga til slitastjórnar um niðurfellingu skulda - að almenningur er jú meira og minna í persónulegum ábyrgðum fyrir sínar skuldir, enda stofnað til þeirra á kennitölu einstaklinga en ekki einkahlutafélaga þar sem persónuleg ábyrgð eigenda er engin. DV hefur eftir Bjarna í dag að það væri náttúrulega bara óábyrgð meðferð á fé af sinni hálfu að borga skuldina.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×