Viðskipti innlent

Vogunarsjóðir sjá tækifæri í íslensku bönkunum á ný

Vísbendingar eru um að bandarísku vogunarsjóðirnir sem veðjuðu gegn íslensku bönkunum í fyrravor eignist Íslandsbanka og Nýja Kaupþing að mestu leyti.

Kröfuhafar Glitnis ákváðu að taka 95 prósenta hlut í Glitni fyrir hálfum mánuði. Um mánaðamótin ræðst hversu stóran hlut kröfuhafar Kaupþings taka í nýja bankanum.

Vogunarsjóðirnir keyptu skuldatryggingar Glitnis, Kaupþings og Landsbankans í fyrravor með þeim afleiðingum að vaxtakjör bankanna ruku upp, og áttu þeir örðugt með fjármögnun á erlendum mörkuðum. Þá er grunur um að sjóðirnir hafi tekið skortstöður gegn erlendum fyrirtækjum sem þau íslensku áttu hlut í. Við það jókst álagið á íslensku fyrirtækin og keyrði það hlutabréf þeirra niður.

Eftir fall bankanna fyrir ári sóttu vogunarsjóðirnir í að kaupa skuldabréf íslensku bankanna af þýskum bönkum og evrópskum fjármálafyrirtækjum. Evrópsku fyrirtækin höfðu flest tapað háum fjárhæðum eftir þrot íslensku bankanna og höfðu litla löngun til að eiga bréfin, hvað þá hlut í bönkunum. Að því leyti teljast vogunar­sjóðirnir heppilegri eigendur.

Skuldabréf Glitnis og Kaupþings voru seld með allt að 98 prósenta afslætti eftir fall bankanna í fyrra. Verðið hefur að minnsta kosti fjórfaldast síðan þá og er meiri hækkunar vænst.

Þeir sem Fréttablaðið hefur rætt við segja vogunarsjóðina hafa aflað sér mikillar þekkingar á íslensku efnahagslífi eftir viðskipti við Íslendinga um árabil. Þá kunni þeir að sjá hagnaðarvon í endurreisn íslenska efnahagslífsins, ekki síst eftir að verstu eignirnar hafa verið hreinsaðar úr bókum bankanna, þar á meðal skuldir eignarhaldsfélaga.

Seðlabankinn sagði í fyrradag skuldir eignarhaldsfélaganna nema eitt þúsund milljörðum króna. Kröfur á þau hafa verið færðar niður í bókum bankanna. Skilanefnd Glitnis býst í besta falli við að tíu prósent skuldanna skili sér. Árni Tómasson, formaður skilanefndarinnar, staðfestir þetta og segir allt eins líklegt að krafan verði strikuð úr bókum bankans. Ekki mun þó um afskrift lána að ræða og kann því eitthvað að skila sér í hús á endanum.

Mikil áhætta er sömuleiðis falin í kröfum á rekstrarfélög, sem mörg hver standa illa. Það er helsti vandi bankanna í dag. - jab










Fleiri fréttir

Sjá meira


×