Viðskipti innlent

Vaxtagreiðslur til útlendinga í ár nema 60 milljörðum

Greining Kaupþings áætlar að vaxtagreiðslur til útlendinga í íslenskum skuldabréfum og innistæðum nemi um 60 milljörðum kr. á árinu. Gengishagnaður af skuldabréfum gæti gert þessa tölu umtalsvert hærri eða 30 milljarða kr. í viðbót, samtals 90 milljarða kr.

Til að setja þessa tölu í samhengi segir greiningin að í spá Seðlabankans í síðustu Peningamálum er gert ráð fyrir 10,8% afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum eða 150 milljörðum kr. „Þessi fjárhæð hrekkur skammt og gerir lítið annað en duga fyrir fyrrnefndum vaxtagreiðslum og gengishagnaði," segir í Markaðspunktum greiningarinnar.

Fram kemur að stórir gjalddagar eru á íslenskum krónueignum í júní og því viðbúið að verulegur þrýstingur verði á krónunni ef erlendir aðilar hyggjast skipta vaxtagreiðslum yfir í gjaldeyri líkt og í mars s.l..

Greiningin áætlar gróflega að heildarútflæðið gæti numið allt að 18 milljörðum kr. í júní þegar allt er talið. Að mati greiningarinnar eiga eigendur krónubréfa möguleika á því að leysa til sín um 11 milljarða kr. í vaxtagreiðslur sem er svipuð upphæð og í mars.

Á gjalddaga í júní er ríkisbréfaflokkurinn RB 09 þar sem útlendingar eiga 69 milljarða kr. að mati Lánasýslu Ríkisins. Auk þess að mega breyta vöxtum í gjaldeyri má sömuleiðis breyta gengishagnaði af bréfunum í gjaldeyri. Gróft mat á gengishagnaðinum er upp á 5 til 7 milljarða kr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×