Viðskipti innlent

Moody´s: Matið á Íslandi hækkar ekki um fyrirsjáanlega framtíð

 

Í nýju áliti Moody´s sem fylgir með ákvörðun matsfyrirtækisins um að lækka lánshæfismatið á Íslandi um tvo flokka niður í Baa3 en með stöðugum horfum kemur fram að matið er háð töluverðri óvissu. Þar að auki valdi miklar skuldir hins opinbera því að takmarkað er hve matið getur hækkað um fyrirsjáanlega framtíð.

 

Í álitinu segir Kenneth Orchard aðstoðarforstjóri þjóðahóps Moody´s að stöðugar horfur í nýja matinu byggi á að flókinn pakki stjórnvaldsákvarðana og hóflegur bati í efnahagskerfi landsins 2011 gangi eftir. „Miklar breytingar á frammistöðunni í efnahags- og fjármálum frá því sem nú er spáð mun hafa áhrif á einkunnargjöf Moody´s," segir Orchard.

 

„Efnahagskerfið hefur staðið sig betur en vænst var og það lítur út fyrir að kreppan muni verða grynnri og styttri en áður var talið."

 

Fram kemur í álitinu að frekari bati í efnahagsmálum landsins sé háður nýjum fjárfestingum í útflutningsgeira landsins þar sem eftirspurn innanlands mun verða veik í nokkur ár.

 

Moody´s tekur fram að fjárhagslegur styrkur stjórnvalda hafi veikst verulega á undanförnu ári m.a. vegna þess að fjárlagahallinn hefur blásið út. Brúttóskuldir hins opinbera munu að mati Moody´s ná hámarki í tæplega 150% af landsframleiðslu á næsta ári. Nettóskuldirnar muni nema um 100% af landsframleiðslunni.

"Þetta háa skuldahlutfall mun takmarka möguleikana á að lánshæfismatið á Íslandi hækki um fyrirsjáanlega framtíð," segir Orchard.

Fram kemur að vaxtagreiðslur muni nema 20% af tekjum ríkissjóðs á næsta ári en minnka svo niður í um 15% árið 2012.

Moody´s hefur áhyggjur af miklum skuldum hins opinbera á Íslandi. Ef ekki finnst lausn á því máli í gegnum einkageirann munu skuldirnar auka mjög þrýstingin á fjármál hins opinbera.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×