Viðskipti innlent

Sparnaðaraðgerðir skila ekki árangri hjá ríkinu

Ríkisendurskoðun segir að þær aðgerðir sem stjórnvöld gripu til í sumar til að hemja kostnað og bæta afkomu ríkissjóðs til ársloka hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Þá hafi 50 valdar ríkisstofanir almennt ekki farið að tilmælum Ríkisendurskoðunnar um að bæta stöðu sína.

Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunnar til Alþingis um framkvæmd fjárlaga tímabiliði janúar til ágúst í ár.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir m.a. að í fjárlögum var gert ráð fyrir að heildartekjur A-hluta ríkissjóðs yrðu rúmlega 282 milljarðar kr. á tímabilinu janúar til ágúst 2009. Í reynd urðu þær nokkru lægri eða 276 milljarðar kr. og er skýringin einkum minni skatttekjur af vörum og þjónustu en búist var við. Á miðju ári var gripið til aðgerða til að auka tekjur og er nú gert ráð fyrir að þær verði 407 milljarðar kr. á árinu í heild sem er 4 milljarðar kr. umfram upphaflega áætlun.

Ríkisendurskoðun hefur farið yfir forsendur nýrrar tekjuáætlunar og sér ekki ástæðu til að ætla annað en hún muni standast. Hækkunin sem hún sýnir samanborið við upphaflega áætlun skýrist af því að vaxtatekjur af innstæðum ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands urðu meiri en búist var við. Ekki hefur þurft að ganga á þessar innstæður sökum þess hve innheimta álagðra skatta hefur gengið vel það sem af er ári.

Þær skattbreytingar sem gerðar voru um mitt ár virðast hins vegar ekki ætla að skila nema hluta þess tekjuauka sem stefnt var að þótt þær kunni að hafa forðað því að tekjur drægjust meira saman en reiknað var með.

Heildargjöld fyrstu átta mánuði ársins voru nokkurn veginn samkvæmt áætlun þótt staðan sé breytileg milli ráðuneyta. Fjárlög gerðu ráð fyrir 153 milljarða kr. halla á rekstri ríkissjóðs á árinu í heild en nú stefnir í að hann verði 182 milljarðar kr. samkvæmt spá fjármálaráðuneytisins. Heildargjöld ársins eru þannig áætluð 589 milljarðar kr. nú samanborið við 556 milljarða kr. heimild í fjárlögum.

Munurinn skýrist til jafns af hærri vaxtagjöldum og hærri gjöldum ráðuneyta. Á miðju ári var gripið til aðgerða til að hemja kostnað og bæta afkomu ríkissjóðs til ársloka en að mati Ríkisendurskoðunar hafa þær ekki skilað tilætluðum árangri.

Í júní sl. gaf Ríkisendurskoðun út skýrslu um fjármálastjórn 50 valinna stofnana þar sem birt var spá um afkomu þeirra í árslok. Almennt hefur ekki verið farið að tilmælum Ríkisendurskoðunar sem fram komu í skýrslunni um að tafarlaust verði brugðist við til að bæta stöðu stofnana sem glíma við rekstrarvanda.

Þó þykir rétt að benda á þrjár stofnanir þar sem rekstur hefur verið tekinn föstum tökum: Háskólann á

Akureyri, Námsmatsstofnun og Raunvísindastofnun Háskólans. Á hinn bóginn telur Ríkisendurskoðun að staðan sé einna verst hjá Landspítalanum, Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla.

Raunar hefur bæst í hóp þeirra stofnana sem glíma við rekstrarvanda frá því að fyrrnefnd skýrsla kom út og er það ólíðandi að mati Ríkisendurskoðunar. Þrátt fyrir þetta virðast flestir forstöðumenn vera sér vel meðvitandi um nauðsyn aðhalds í rekstri og hafa að því er best verður séð gripið til margháttaðra ráðstafana í því skyni að halda honum innan áætlana. Hins vegar skortir skýrari fyrirmæli frá ráðuneytunum um samdrátt í þjónustu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×