Viðskipti erlent

Baugur ætlar að halda í breskar eignir sínar

Baugur ætlar að halda í breskar eignir sínar þrátt fyrir að hafa sagt upp helmingi starfsmanna sinna á skrifstofunni í London samkvæmt frétt um málið í blaðinu Guardian í dag.

Eignir á borð við Hamleys og House of Fraser verða því ekki seldar að sinni þrátt fyrir áhuga ýmissa á því að kaupa þær. „Við núverandi kringumstæður er ekki rétt að selja," segir heimildarmaður Guardian.

Fram kemur í blaðinu að Baugur eigi nú í samningaviðræðum við íslensku bankana þrjá, Glitni, Landsbankann og Kaupþing um fjárhagslega enduruppbyggingu félagsins. Einn möguleikinn sem er til skoðunar er að skuldum verði breytt í hlutafé samkvæmt heimildum Guardian.

Heildarskuldir Baugs í Bretlandi nema ríflega milljarði punda eða um 166 milljörðum kr. Eins og fram kom í fréttum fyrir nokkru síðan hafði auðjöfurinn sir Philip Green áhuga á að kaupa þær og ná þannig yfirráðum yfir eignunum.

Eftir að sú hugmynd var blásin af borðinu hófust viðræður Baugs við íslensku bankana að nýju.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×