Viðskipti innlent

Eimskip sýknað af kröfu Baldurs Guðnasonar

Eimskip var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknað af kröfu Baldurs Guðnasonar, fyrrverandi forstjóra þess, um greiðslu launa í tvö ár, allt til loka febrúar 2010. Byggir sýknan á því að Baldur hafi misnotað aðstöðu sína og því beri að ógilda starfslokasamning við hann.

Í tilkynningu segir að Baldur krafðist þess að viðurkenndur yrði réttur hans gagnvart Eimskip til óskertra launa, orlofslauna og lífeyrissjóðsframlaga frá 1. maí 2008 til og með 28. febrúar 2010 á grundvelli viðauka við starfssamning.

Mánaðarlegar greiðslur hefðu verið um 56.520 evrur á mánuði, þ.e. laun, orlof og lífeyrisframlag. Miðað við gengi evru í dag er um 10 milljónir að ræða á mánuði í tæp 2 ár eða ríflega 240 milljónir kr.

Eimskip byggði sýknukröfu sína m.a. á því að ráðningarsamningi Baldurs hafi verið rift, að hann hafi beitt svikum við gerð viðauka á starfssamningi, en einnig var byggt á 33. gr. og 36. gr. samningalaga, þ.e óheiðarleika og ósanngirni af hálfu Baldurs.

Loks byggði félagið varnir sínar á því að forsendur fyrir viðauka við ráðningarsamning Baldurs hafi brostið.

Héraðsdómur féllst á það með Eimskip að Baldur hefði, gegn betri vitund, misnotað aðstöðu sína og bæri því að ógilda samninginn á grundvelli 30. gr. laga nr. 7/1936, og féllst á sýknukröfu félagsins.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×