Viðskipti innlent

Skuldabréfið ófundið

 Enn er unnið að því að stemma af bókhald þrotabús Glitnis. Fréttablaðið/Anton
Enn er unnið að því að stemma af bókhald þrotabús Glitnis. Fréttablaðið/Anton

Skilanefnd Glitnis hefur enn ekki fundið hvar skuldabréfakrafa upp á 140 milljarða króna liggur í bókhaldi þrotabús gamla bankans.

Glitnir gaf skuldabréfið út á fyrri hluta síðasta árs. Fyrir hálfum mánuði kom upp á fundi með kröfuhöfum að krafan, sem jafngildir fimm prósentum af heildarkröfum í búið, stemmdi ekki við bókhaldið og var endurskoðendafyrirtækið Deloitte fengið til að skoða málið. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, sagði í samtali við Fréttablaðið í kjölfarið ekkert óeðlilegt þurfa að vera við misræmið. Skuldabréfið kunni að vera fært undir öðrum bókhaldslið. Niðurstöðu var vænst á föstudaginn var.

Leitin stendur hins vegar enn yfir og mun tilkynning um málið verða gefin út fljótlega, samkvæmt upplýsingum frá skilanefndinni.

Ekki liggur fyrir hver á skuldabréfið en frestur til að skila inn kröfu í bú Glitnis rennur út eftir viku. Reiknað er með því að þorri krafnanna skili sér í búið síðustu dagana fyrir lokafrestinn. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×