Viðskipti innlent

Kaupmáttur launa orðin sá sami og í árslok 2003

Kaupmáttur launa er nú orðinn sá sami og hann var í lok árs 2003. Hefur hann lækkað um 9,7% frá því að hann náði sögulegu hámarki í byrjun árs 2008.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að lækkunin undanfarið er meiri og hraðari en hér hefur mælst síðan á samdráttarskeiðinu um og eftir 1990. Kaupmáttur launa stendur um 8,9% hærra en hann gerði fyrir tíu árum síðan og 24,9% hærri en hann gerði fyrir tuttugu árum. Kaupmáttur launa er því enn nokkuð hár miðað við það sem þá var a.m.k. Kemur þetta fram í gögnum sem Hagstofan birti í morgun.

Vænta má þess að launahækkanir verði litlar á næstu mánuðum enda mikill slaki á vinnumarkaði. Samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar sem birt var í morgun hafa laun hækkað um 0,6% frá hruni bankanna í október á síðasta ári.

Verðbólgan hefur verið hröð á sama tíma og kaupmáttur launa rýrnað af þeim sökum. Atvinnuleysi hefur á þessum tíma aukist umtalsvert. Skráð atvinnuleysi hefur þannig farið úr 1,9% í 9,1% á tímabilinu. Áhrif þessa sjást í kaupmætti ráðstöfunartekna á mann sem samkvæmt nýbirtri spá Fjármálaráðuneytisins verður um 18% lægri í ár en hann var 2007 þegar hann náði sögulegu hámarki.

Framundan er vaxandi slaki á vinnumarkaði með auknu atvinnuleysi og litlum sem engum launahækkunum. Náist að halda gengi krónunnar stöðugu ætti verðbólgan á hinn bóginn að vera lítil. Spáir ráðuneytið því að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann muni á næsta ári verða um 20% minni en 2007 og rétt lægri en hann var á árinu 2004 en samt um 13% meiri en hann var hér fyrir um tíu árum síðan.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×