Viðskipti innlent

Óskráð félag á viðskipti með gjaldeyri

Víðir Smári Petersen skrifar: skrifar
Við Seðlabankann Eftirlit með lögum um gjaldeyrisviðskipti er á höndum Seðlabanka Íslands. Vakni grunur um að brotið hafi verið gegn lögunum vísar bankinn málum til Fjármálaeftirlitsins til frekari rannsóknar. Fréttablaðið/Pjetur
Við Seðlabankann Eftirlit með lögum um gjaldeyrisviðskipti er á höndum Seðlabanka Íslands. Vakni grunur um að brotið hafi verið gegn lögunum vísar bankinn málum til Fjármálaeftirlitsins til frekari rannsóknar. Fréttablaðið/Pjetur

„Við höfum ekki tekið eftir því að neinn sé að svindla," segir Anna Jakobína Hilmarsdóttir, féhirðir Landsbankans í Austurstræti. Fréttablaðið hafði nýverið eftir félagsmálaráðherra að mikill hagnaður væri í gjaldeyrisbraski. Nefndi hann farseðlasvindl sem dæmi.

Smáauglýsingar hafa verið í blöðunum undanfarið þar sem óskað er eftir að selja eða kaupa gjaldeyri. Fyrirtækið Regent Accounts Ltd. sem auglýst hefur er ekki skráð í fyrirtækja- eða firmaskrá á Íslandi.

Vegna hafta er kvóti á gjaldeyriskaupum þegar fólk er á leið til útlanda. Hver og einn getur tekið út 500 þúsund krónur í gjaldeyri gegn því að sýna farseðil. Ekki eru aldursmörk á gjaldeyriskaupunum.

„Stundum kemur fyrir að fjölskylda kaupir allan kvótann sinn en kemur þá oft með hann aftur og leggur inn á gjaldeyrisreikning," segir Anna.

Sá sem fyrir svörum varð sagði þó alla starfsemina löglega og ekki sé verið að versla með skilaskyldan gjaldeyri. Eingöngu sé haft milligöngu um gjaldeyri milli fyrirtækja erlendis. Öll viðskiptin fari í gegnum erlenda reikninga. Hann segir margt fólk hafa haft samband við sig eftir að fréttin birtist á föstudag og hafi séð fram á stórfelldan hagnað en það „verði fyrir vonbrigðum", þar sem ekkert slíkt sé í boði.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra segir margt benda til þess að ósköp lítil velta sé á gjaldeyrismarkaði með íslenskar krónur.

„Það hefur gerst á undanförnum vikum að gengi krónunnar í útlöndum hefur styrkst mikið. Munur á opinberu gengi og það sem við getum kallað á svörtum markaði hefur því minnkað," segir Gylfi.

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari efnahagsbrota, segir lögreglu hafa fengið nokkrar ábendingar um gjaldeyrissvindl sem þau hafi vísað til Fjármálaeftirlitsins.

„Þetta eru flestar óljósar ábendingar frá fólki út í bæ. Það kallar þá á frekari rannsókn til að athuga hvort þetta eigi við rök að styðjast," segir Helgi.

Samkvæmt 8. gr. laga um gjaldeyrismál er öðrum aðilum en Seðlabanka óheimilt að hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti hér á landi nema hafa til þess heimild í lögum eða fá til þess leyfi frá Seðlabankanum. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum hefur nokkrum málum verið vísað til Fjármálaeftirlitsins vegna gruns um brot á gjaldeyrislögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×