Viðskipti innlent

Verulega dregur úr aukningu peningamagns í umferð

Myndin fylgir með umfjöllun greiningar Íslandsbanka.
Myndin fylgir með umfjöllun greiningar Íslandsbanka.

Mjög hefur hægt á aukningu peningamagns í umferð undanfarna mánuði, enda má segja að framboð lausafjár í fjármálakerfinu hafi oftast verið meira en eftirspurn það sem af er ári. Samkvæmt nýlega birtum tölum Seðlabankans var grunnfé í lok septembermánaðar alls tæpir 161 milljarðar kr. Þar af voru seðlar og mynt í umferð röskir 25 milljarðar kr. en innstæður innlánsstofnana 136 milljarðar kr.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að peningamagn samkvæmt þröngri skilgreiningu , M1, var tæpir 600 milljarðar kr. í septemberlok, en til þess teljast veltiinnlán að viðbættum seðlum og mynt í umferð. Samkvæmt breiðustu skilgreiningu Seðlabankans, M3, sem inniheldur bundin innlán að viðbættum veltiinnlánum og almennu sparifé, var heildarmagn peninga í umferð hins vegar ríflega 1.735 milljarðar kr.

Innlán á óbundnum reikningum jukust verulega í kring um bankahrunið í fyrrahaust, sem ætti ekki að koma á óvart í ljósi yfirlýstrar ríkisábyrgðar á innstæðum í fjármálafyrirtækjum. Þannig var fé á óbundnum sparifjárreikningum, veltiinnlán og seðlar og mynt í umferð samanlagt tæpir 717 milljarðar kr. í lok september í fyrra.

Í októberlok hafði þessi staða hins vegar hækkað í ríflega 1.023 milljarða kr. og hefur staðan haldist nærri 1.000 milljarða kr. allar götur síðan. Slíka þróun er hins vegar ekki hægt að greina í bundnum innlánum á heildina litið, en samsetning þeirra breyttist í kjölfar hrunsins á þá lund að verulega dró úr innlánum á peningamarkaðsreikningum á meðan verðtryggð innlán jukust umtalsvert.

Frá áramótum til septemberloka jókst peningamagn í umferð aðeins um 5%, sé miðað við þróun M1 en um tæp 4% ef M3 er lagt til grundvallar. Hins vegar jókst grunnfé um tæp 40% á sama tímabili. Ástæða þessa er væntanlega sú að sakir rúmrar lausafjárstöðu og lítillar lánsfjáreftirspurnar ávaxta bankarnir lausafé sitt í töluverðum mæli í Seðlabankanum.

Það fé kemur fram í þróun grunnfjárins, en þar sem því er ekki veitt til útlána verða ekki af því margföldunaráhrif í fjármálakerfinu og eykst því ekki peningamagn eins og það er mælt með M1-M3 af þess völdum. Peningamargfaldarar í íslensku fjármálakerfi hafa því lækkað undanfarið og hafa þeir vart verið lægri undanfarin ár.

Alla jafna leiðir hröð aukning peningamagns í umferð til verðbólguþrýstings, þar sem fleiri krónur verða þá til skiptanna til kaupa á tilteknu magni af vörum og þjónustu, en það er þó tæpast mikið áhyggjuefni þessa dagana ef marka má þróun peningamagns hérlendis það sem af er ári, að því er segir í Morgunkorninu.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×