Viðskipti innlent

Óvissa um afnám gjaldeyrishafta veikir gengi krónunnar

Lítil trú virðist vera á krónunni og gríðarleg óvissa ríkir varðandi framtíð gjaldeyrishaftanna og hvenær þau verða afnumin. Óvissan veikir gengi krónunnar. Í stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins segir að tímasett áætlun verði lögð fram fyrir 1. ágúst næstkomandi um afnám hafta.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að krónan hafi síðustu vikur verið að feta sig í átt að nýju jafnvægi í grennd við 230 stig þegar miðað er við gengisvísitöluna en evran hefur verið að sveiflast í kringum 178 krónur á sama tímabili og Bandríkjadollar í kringum 128 krónur.

Af yfirlýsingum stjórnvalda, Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins má draga þá ályktun að afnám hafta geti hafist í fyrsta lagi síðar á þessu ári en ljóst er að það verður ekki gert fyrr en annarri endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur verið lokið.

Þá verður annar hluti láns AGS greiddur út auk fyrsta hluta lána Norðurlandanna en þessi lán verða notuð í að styrkja gjaldeyrisforðann sem er nauðsynlegt forsenda þess að hægt verði að aflétta höftunum.

Seðlabankinn hefur þó sent frá sér nokkuð misvísandi skilaboð undanfarið um hve vænta megi að höftin verði langvinn. Þannig sagði framkvæmdastjóri upplýsingasviðs bankans nýlega í viðtali við Viðskiptablaðið að ekkert væri í spilunum um að gjaldeyrishöftin yrðu afnumin að fullu fyrir nóvemberlok á næsta ári.

Óvissan um væntan líftíma haftanna er neikvæð fyrir gengi krónu að mati greiningarinnar. Í fyrsta lagi kyndir hún undir væntingar margra um veikingarhrinu á komandi mánuðum ef hafist verður handa við afléttingu haftanna fljótlega, sem svo aftur letur útflytjendur til sölu á gjaldeyri og hvetur aðra til kaupa á honum.

Á hinn bóginn er sú skoðun, sem virðist allútbreidd, að höftin séu komin til að vera og því líkleg til að auka viðleitni manna við að fara í kring um þau. Rannsóknir hafa sýnt að gjaldeyrishöft ná sjaldnast tilgangi sínum til lengri tíma litið og raunar má færa rök fyrir því að í hagkerfi sem er eins lítið, opið og þróað og hið íslenska séu enn minni líkur en ella á að höft haldi nema tímabundið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×