Erlent

Baskar ráðast á fjölskyldufólk í blokk

Öflug bílasprengja sprakk að næturlagi fyrir utan bygginguna þar sem lögreglumenn og fjölskyldur þeirra búa. Mynd/AP
Öflug bílasprengja sprakk að næturlagi fyrir utan bygginguna þar sem lögreglumenn og fjölskyldur þeirra búa. Mynd/AP

Talið er að ETA, aðskilnaðarsamtök Baska, hafi staðið að baki öflugri bílasprengju, sem olli verulegu tjóni á norðanverðum Spáni í fyrrinótt.

Um sextíu manns slösuðust og miklar skemmdir eru á byggingu, þar sem lögreglumenn og fjölskyldur þeirra búa. Sprengjan sprakk fyrir utan þessa byggingu í bænum Burgos í Baskahéruðum Spánar um tvöleytið að staðartíma.

Enginn frá ETA hringdi áður en sprengjan sprakk til að vara við, eins og venjan hefur þó verið. Engu að síður telja yfirvöld líklegast að ETA hafi staðið að þessu voðaverki.

„Árásinni var greinilega ætlað að valda dauðs­föllum," sagði Alfredo Perez Rubalcaba, innan­ríkis­ráðherra Spánar. „Þessu var ekki aðeins beint að þeim sem starfa í varðliðasveitunum, sem væri fyrirlitlegt í sjálfu sér, heldur var stefnt að því að meiða fjölskyldur þeirra, sem gerir þetta enn viðurstyggilegra."

Þetta er áttunda árásin frá ETA á þessu ári, sem sýnir greinilega að samtökin eru í fullu fjöri þrátt fyrir að lögreglunni á Spáni og í Frakklandi hafi tekist að gera þeim stórar skráveifur undanfarið.

Samtökin hafa orðið meira en 800 manns að bana síðan 1968 þegar þau hófu vopnaða baráttu fyrir stofnun sjálfstæðs Baskalands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×