Erlent

Náttúruval speglast í mannætum

Árlega er haldin ættbálkahátíð á Papúa Nýju-Gíneu í bænum Mount Hagen og safnast þar þá saman fulltrúar velflestra ættbálkanna. Myndin er frá 46. hátíðinni sem haldin var 18. ágúst 2007.  Nordicphotos/AFP
Árlega er haldin ættbálkahátíð á Papúa Nýju-Gíneu í bænum Mount Hagen og safnast þar þá saman fulltrúar velflestra ættbálkanna. Myndin er frá 46. hátíðinni sem haldin var 18. ágúst 2007. Nordicphotos/AFP
Aflagðir helgisiðir ættbálks á Papúa Nýju-Gíneu tengdir mannáti urðu kveikjan að einhverju greinilegasta dæmi sem þekkt er um hraða þróun mannsins, samkvæmt nýrri uppgötvun vísindamanna. Breska dagblaðið The Times fjallaði fyrir helgi um uppgötvunina.

Um miðja tuttugustu öld var Fore-ættbálkurinn í eystri hálöndum Papúa Nýju-Gíneu hart leikinn af heilarýrnunarsjúkdómnum kuru, sem skyldur er sjúkdómum á borð við Creutzfeldt Jacobs og kúariðu. Sjúkdómurinn smitaðist við helgisiði tengda útförum þar sem étnir voru heilar látinna.

„Þótt látið hafi verið af þessum háttum á sjötta áratug aldarinnar og kuru verið upprættur ber erfðamengi ættbálksins sjúkdómsins merki.

Rannsóknir hafa nú leitt í ljós genabreytingu í ættbálknum sem ekki finnst annars staðar og ver þá sem bera breytta genið fyrir heilarýrnunarsjúkdómum. Breytta genið hefur dreifst hratt um ættbálkinn með náttúruvali,“ segir í Times.

Þeir sem bera breytta genið hafa nær algjöra vörn gegn kuru og nutu því forskots og eignuðust fleiri afkomendur. Fram kemur að um átta prósent þeirra sem búa í grennd við Purosa-dal beri genið, en það þekkist hvergi annars staðar í heiminum.

Uppgötvunin er sögð sýna fram á hversu hratt mannskepnan geti brugðist við breyttum umhverfis­þáttum. Simon Mead er vísindamaðurinn sem fór fyrir rannsóknarhópi, frá University College í Lundúnum, sem gerði uppgötvunina. Niðurstöðurnar voru nýverið birtar í læknaritinu New England Journal of Medicine.

Haft er eftir prófessor John Collinge, framkvæmdastjóra rannsókna sem snúa að príon-prótínbútum þeim sem taldir eru orsök heilarýrnunarsjúkdóma af þessari tegund, að stórkostlegt sé að sjá þarna að verki lögmál þau sem Charles Darwin hafi lýst fyrir 150 árum. „Þarna er samfélag sem þróað hefur með sér sín eigin og einstök líffræðilegt viðbrögð við sannarlega hroðalegum sjúkdómi,“ segir hann.

Rannsóknin er einnig sögð mikilvæg vegna þess hve mikilvæg hún sé í að upplýsa virkni príon-prótínbútanna sem valda Creutzfeldt-Jakobs, en það er sú birtingarmynd kúariðu sem leggst á fólk.

„Uppgötvunin verður ekki til þess að á morgun verði hægt að framleiða lyf, en hún eykur bakgrunnsskilning okkar á virkni príon-sjúkdóma og hvernig koma megi í veg fyrir þá,“ segir Dr. Simon Mead.

Kuru kom fram snemma á 20. öld en hvarf á sjötta áratugnum þegar áhrif trúboða urðu til þess að mannátshelgisiðir lögðust af.

olikr@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×