Viðskipti innlent

SA: Umsvif áliðnaðarins eru um 5% af landsframleiðslu

Hannes G. Sigurðsson, hagfræðingur og aðstoðarframkvæmdastjóri SA, bendir á í grein á vef SA að í landinu eru nú framleidd um 800 þúsund tonn af áli árlega og bein og óbein umsvif áliðnaðarins vegi u.þ.b. 5% af vergri landsframleiðslu.

Hannes segir ennfremur að gjaldeyrisjöfnuður landsmanna sé rúmlega 10% hagstæðari en ef hann starfaði ekki í landinu. Það samsvari a.m.k. 80 milljörðum af hreinum gjaldeyristekjum á ári.

Hannes segir tillögur ríkisstjórnarinnar um sérstaka orkuskatta bera þá hættu í sér að setja í uppnám eða slá alveg út af borðinu ýmis framkvæmdaáform sem hafa verið í undirbúningi undanfarna mánuði.

„Það yrði hörmuleg niðurstaða enda eru framkvæmdirnar við byggingu álvers í Helguvík og stækkunin í Straumsvík mikilvægar forsendur þjóðhagsáætlunar og fjárlagafrumvarps fyrir árið 2010.

Færu þessar framkvæmdir af stað á næstunni gætu þær bætt stöðu ríkissjóðs um allt að 17 milljarða króna á næstu einu til tveimur árum. Þá eru ótalin tekjuáhrif opinberra aðila af byggingu virkjana og öðrum fjárfestingarverkefnum sem eru í augsýn, s.s. netþjónabúum." segir Hannes.

Hannes bendir jafnframt á að 300 þúsund tonna álver auki verga landsframleiðslu um 2% og ef miðað sé við aðstæður í dag verði tæpir 30 milljarðar króna eftir í landinu á ári hverju í formi greiðslna fyrir orku, vinnulaun, aðkeypta þjónustu og skatta. Umsvif sem þessi tryggi 4% hreina viðbót við útflutningstekjur, að frádregnum aðföngum.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×