Viðskipti innlent

Pistill: Líkur minnka á umfangsmikilli stýrivaxtalækkun

Friðrik Indriðason skrifar: skrifar

Margt bendir nú til að líkur á umfangsmikilli stýrivaxtalækkun, það er 2-3 prósentustig, fari minnkandi með hverjum deginum sem líður. Að vísu hefur greining Íslandsbanka sent frá sér stýrivaxtaspá upp á lækkun um 2 prósentustig. Telja verður þá spá í bjartsýnna lagi enda gerir greiningin sjálf fyrirvara við hana.

Greining Kaupþings fjallaði um málið í Markaðspunktum sínum og vitnaði þar til setningar úr fundargerð peningamálastefnunefndar sem birt var í síðustu viku. Setningin hljóðar svo: „Lækkun stýrivaxta getur þó aðeins komið til hafi trúverðug áætlun um aðgerðir stjórnvalda varðandi fjármálastefnuna litið dagsins ljós."

Þetta er lykilsetning í fundargerðinni og skiptir miklu máli að mati greiningarinnar.

„Greiningardeild telur athyglisvert að þessari setningu skuli hafa verið sleppt í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar á vaxtaákvörðunardeginum og veltir því fyrir sér hvort henni hafi jafnvel verið bætt inn í fundargerðina eftir á," segir í punktunum. „Eftir að sendifulltrúi IMF lýsti því yfir opinberlega að ekki væri svigrúm til frekari vaxtalækkana...Með þessari setningu í fundargerðinni er nú formlega búið að hnýta saman gagnrýni IMF og Seðlabankans á stjórnvöld."

Ennfremur segir að boltinn sé nú alfarið í höndum stjórnvalda og aðeins 10 dagar í næstu stýrivaxtaákvörðun.

Greining Íslandsbanka gerir þetta einnig að umtalsefni í sinni spá og bendir á að yfirlýsing peningastefnunefndar um væntanlega umfangsmikla stýrivaxtalækkun nú þann 4. júní n.k..." byggði einnig á þeirri forsendu að aðhald í ríkisfjármálum yrði aukið núna í sumar með verulegum niðurskurði útgjalda, hækkun skatta og öðrum tekjuaukandi aðgerðum. Áætlun ríkisstjórnarinnar um þetta hefur enn ekki litið dagsins ljós."

Það eru ekki margir sem hafa trú á því að fyrrgreind áætlun ríkisstjórnarinnar muni líta dagsins ljós fyrir næstu vaxtaákvörðun peningastefnunefndarinnar. Raunar er þetta sem og önnur markmið í upphaflegri tímaáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) enn óuppfyllt.

Hvað þetta varðar má nefna að nú átti m.a. að vera lokið endurfjármögnun bankakerfisins, endurskipulagningu regluverks fjármálakerfisins, áætlun um endurheimtur eigna og áætlanir um endurskipulagningu ríkisfjármála til næstu ára. Ekkert af þessu liggur fyrir.

Þá er einnig bent á að hin höfuðforsendan fyrir umfangsmikilli vaxtalækkun var að gengi krónunnar héldist stöðugt. Það hefur hinsvegar veikst um tæp 5% frá síðustu ákvörðun sem vart verður túlkað sem merki um stöðugleika.

En fulltrúi AGS lét hafa það eftir sér um daginn að ekki væri efni til frekari stýrivaxtalækkunar í bráð. Þetta olli talsverðum titringi í þjóðfélaginu og m.a. sagði Svein Harald Öygard seðlabankastjóri af því tilefni að peningastefnunefnd tæki sjálfstæðar ákvarðanir.

Það er því augljóst að stýrivextir verða lækkaðir þann 4. júní hvað sem tautar og raular. Ekki er hinsvegar raunsætt að gera ráð fyrir að sú lækkun verði meiri en í kringum eitt prósentustig.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×