Innlent

Sigurrós inn í myndinni sem bæjarstjóri

Sigurrós Þorgrímsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs.
Sigurrós Þorgrímsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs. Mynd/Anton Brink

Nafn Sigurrósar Þorgrímsdóttur, forseta bæjarstjórnar Kópavogs, er nú nefnt meðal sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu sem líklegur arftaki Gunnars I. Birgissonar í stöðu bæjarstjóra. Undanfarna daga hafa Gunnsteinn Sigurðsson og Ármann Kr. Ólafsson oftast verið nefndir í því samhengi en nú hefur nafn Sigurrósar bæst við.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eiga stuðningsmenn þeirra Gunnsteins og Ármanns aftur á móti afar erfitt með að una því að annar þeirra fái bæjarstjórastólinn frekar en hinn. Því er ekki loku fyrir það skotið að sátt muni nást um Sigurrós sem næsta bæjarstjóra.

Í samtali við fréttastofu fyrr í dag sagði Sigurrós um möguleikann á því að hún myndi setjast í stól bæjarstjóra: „Það hefur verið nefnt við mig en það hefur eflaust verið nefnt við okkur öll."

Sigurrós hefur átt sæti í bæjarstjórn Kópavogs frá 1998. Hún var auk þess þingmaður á árunum 2006 til 2007.


Tengdar fréttir

Guðríður: Of mörgum spurningum ósvarað

Guðríður Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi, segir að enn sé of mörgum spurningum ósvarað varðandi brotthvarf Gunnars Birgissonar úr stól bæjarstjóra. Krafa minnihlutans hafi verið sú að Gunnar léti af ábyrgðarstörfum fyrir Kópavog.

Ólafur Þór: Ákveðin kaflaskil

„Þetta eru ákveðin kaflaskil fyrir sveitafélagið, hinsvegar á ég erfitt með að sjá hvernig þeir ætla að starfa áfram með Gunnar innanborðs,“ segir Ólafur Þór Gunnarsson, bæjarfulltrúi Vinstri Grænna í Kópavogi um þær fréttir að Gunnar hyggist víkja úr sæti bæjarstjóra. Hann segir þó vandamálum Sjálfsstæðisflokksins í Kópavogi hvergi nærri lokið.

Eftirsjá að Gunnari

„Það er mikil eftirsjá að Gunnari ef það er satt að hann ætli að víkja," segir Sigurrós Þorgrímsdóttir, forseti bæjarstjórnar Kópavogs.

Samfylkingin í Kópavogi: Gunnar verður að víkja

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Kópavogi ítreka fyrri kröfu sína um að Gunnar I. Birgisson axli ábyrgð og víki sem bæjarstjóri eftir að hann hafi gerst sekur um að hygla stórlega fyrirtæki í eigu dóttur hans. Nú sé reynt að láta umræðuna snúast um skýrslur endurskoðenda og lögfræðiálit en ekki sé rætt um pólitíska og siðferðislega ábyrgð. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Guðríði Arnardóttur, oddvita Samfylkingarinnar í bæjarfélaginu.

Vissi ekki af ákvörðun Gunnars

Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og annar maður á lista flokksins í síðustu bæjarstjórnarkosningum, hafði ekki heyrt að Gunnar I. Birgisson ætli að víkja sem bæjarstjóri þegar fréttastofa náði tali af honum.

„Meirihlutasamstarfið stendur traustum fótum eins og alltaf“

Oddvitar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Kópavogi funduðu í morgun um stöðu mála í bæjarpólitíkinni. Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, vildi í samtali við fréttastofu ekki tjá sig um niðurstöðu fundarins.

Gunnar hættir sem bæjarstjóri: Kominn tími á kónginn

„Ég lagði það til á fundinum í gær með mínum flokksfélögum að það væri kominn tími á kónginn,“ segir Gunnar Birgisson sem fyrir skemmstu lauk fundi með Ómari Stefánssyni, bæjarfulltrúa Framsóknarmanna í Kópavogi og samstarfsfélaga Gunnars í meirihlutanum í Kópavogi. Niðurstaða þess fundar var sú að Gunnar hættir sem bæjarstjóri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×