Innlent

Fleiri handteknir vegna lánasjóðssvikamyllu

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Lögreglumenn í Leifsstöð. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki.
Lögreglumenn í Leifsstöð. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki. Mynd/Stefán

Tveir ungir menn, 21 og 23 ára gamlir, voru í dag handteknir í Leifsstöð við komuna erlendis frá í tengslum við fjársvikamál sem efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra er með til rannsóknar.

Starfsmenn ríkislögreglustjóra sem Fréttastofa náði tali af gátu ekki veitt nánari upplýsingar um aðild mannanna að málinu, eða hvaðan hinir handteknu voru að koma.

Þegar sitja tveir menn, fæddir 1989 og 1990, í einangrun vegna málsins, en þeir voru handteknir í síðustu viku.

Mennirnir fjórir eru grunaðir um aðild að því að hafa svikið tugi milljóna út úr hlutafélögum og Íbúðalánasjóði með stórfelldum fölsunum.

Þeir munu hafa tekið yfir hlutafélög með því að tilkynna um yfirtöku, breytta prókúruhafa og breytingar á stjórnum og þannig náð til sín fjármunum og öðrum verðmætum í eigu félaganna. Þessar tilkynningar voru falsaðar og þannig blekktu mennirnir Fyrirtækjaskrá, sem samþykkti beiðnir mannanna.

Þá eru þeir jafnframt taldir hafa falsað kaupsamninga að fasteignum í eigu þessara félaga, selt þær á tilbúnar kennitölur og jafnframt tekið lán fyrir kaupunum hjá Íbúðalánasjóði á þessar tilbúnu kennitölur. Því fé hafi þeir svo stungið undan, að því er fram kom í frétt Fréttablaðsins um málið þegar það kom fyrst upp.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×