Viðskipti innlent

Ríkisbréfaeign útlendinga minnkaði töluvert í júní

Eign útlendinga í ríkisverðbréfum minnkaði talsvert í júní en þeir eiga þó enn um það bil 180 milljarða kr. að nafnvirði í ríkisbréfum og víxlum. Vaxtagreiðslur ríkissjóðs til erlendra fjárfesta eru því enn verulegar.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu.Þar segir að í Markaðsupplýsingum Seðlabankans fyrir lánamál ríkisins, sem út komu í gær, kemur fram að erlendir fjárfestar keyptu fimmtung seldra bréfa í fyrsta útboði á ríkisbréfaflokknum RIKB 25 0612, alls ríflega 2 milljarða kr. að nafnverði.

Telur greiningin ótvírætt jákvætt að útlendingar skuli hafa áhuga á íslenskum langtíma ríkisbréfum, þótt enn sem komið er sé ekki um háar fjárhæðir að ræða. Raunar er athyglisvert að stærsti kaupendahópur þessara bréfa voru innlendir lífeyrissjóðir sem keyptu 23% þeirra, en hlutdeild lífeyrissjóðanna í öðrum ríkisbréfaflokkum er að jafnaði um 7%. Langur líftími hins nýja flokks ætti hins vegar að henta fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða tiltölulega vel.

Alls keyptu erlendir fjárfestar ríkisbréf í útboðum Seðlabankans fyrir 28,9 milljarða kr. í júní, sem svarar til tæplega tveggja þriðjuhluta sölu bankans í útboðum í síðasta mánuði. Þetta telja Seðlabankamenn í riti sínu til marks um aukinn áhuga útlendinga á kaupum á innlendum ríkisbréfum. Hins vegar ber að hafa í huga að í júní var gjalddagi á miklu magni ríkisbréfa, ríkisvíxla og innstæðubréfa sem að mestu leyti var í eigu útlendinga.

Þannig var ríkisbréfaflokkurinn RIKB 09 0612 á lokagjalddaga í mánuðinum, en útlendingar áttu 71 milljarð kr. að nafnverði í þeim flokki. Einnig áttu þeir 11,5 milljarða kr. af þeim 20 milljörðum kr. ríkisvíxlaflokki sem féll á gjalddaga í síðasta mánuði, en keyptu aðeins 1,2 milljarð kr. af nýjum ríkisvíxlum í útboði Seðlabankans í júní.

Síðast en ekki síst voru innstæðubréf Seðlabankans að upphæð 67 milljarðar kr. á gjalddaga í júní, en langstærstur hluti þeirra var í eigu útlendinga. Erlendir fjárfestar fengu því í hendurnar í kring um 140 milljarða kr. í júní, að vöxtum meðtöldum, vegna gjalddaga ríkisverðbréfa og innstæðubréfa, en kusu aðeins að endurfjárfesta ríflega 30 milljarða kr. í ríkisverðbréfum í útboðum Seðlabankans.

Mismunurinn liggur trúlega að mestu leyti á krónureikningum Seðlabanka og erlendra sem innlendra fjármálastofnana, þótt einnig kunni útlendingar að hafa fjárfest í ríkisverðbréfum á eftirmarkaði í einhverjum mæli. Snörp hækkun á bundnum innlánum fjármálastofnana í Seðlabankanum, og síðan hinum nýju innstæðubréfum þeirra hjá bankanum, rennir stoðum undir þessa skoðun greiningarinnar.

Á meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði er líklegt að eign útlendinga í ríkistryggðum pappírum verði áfram veruleg, þar sem þeim er óheimilt að flytja höfuðstól krónueignar sinnar úr landi, og fátt um aðra kosti til ávöxtunar á krónueigninni að innlánsreikningum frátöldum.

Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að meðan þessi er raunin renna háar vaxtagreiðslur úr ríkissjóði til útlendingana, sem margir hverjir vilja þó frekar hverfa úr krónunni en þiggja þessa vexti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×