Erlent

Notast við stórvirkar vinnuvélar við björgunarstörf

Vegna skorts á þjálfuðum mannskap nota björgunarsveitir á Súmötru stórvirkar vinnuvélar til þess að leita að fólki í rústum hundruða húsa sem hrundu í jarðskjálftanum í gær. Við vörum við myndum sem fylgja þessari frétt.

Hamfarasvæðið er svo stórt að talið er að það muni taka of langan tíma að grafa varlega í rústunum. Yfir 500 hafa þegar fundist látnir og talið er að þúsundir til viðbótar séu grafnir í rústum yfir 500 húsa. Þar á meðal eru skólar, hótel, sjúkrahús og verslunarmiðstöðvar.

Hernum hefur verið skipað að stefna sínum jarðýtum og öðrum stórvirkum vinnuvélum til höfuðborgarinnar Padang þar sem mest tjónið varð.

Auk þess að jafna hús við jörðu rauf jarðskjálftinn vegi og eyðilagði símstöðvar, sem gerir björgunarstarfið enn erfiðara. Jarðskjálftinn var svo öflugur að háhýsi sveifluðust til í Malasíu og Singapore í mörghundruð kílómetra fjarlægð.

Í ljós hefur komið að einhverjir fórust í umferðarslysum eftir að jarðskjálftinn reið yfir. Minnugir flóðbylgjunnar skelfilegu sem varð 230 þúsund manns að bana um jólin 2004 héldu margir að flóðbylgja myndi fylgja þessum skjálfta.

Skelfingu lostnir íbúarnir reyndu því að flýja borgina á bílum sínum og mótorhjólum og við það urðu mörg slys.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×