Erlent

40 ár frá Woodstock

Woodstock tónlistarhátíðin er 40 ára í dag. Hátíðarinnar er gjarnan minnst sem þeirri sögulegustu í tónlistarsögunni.

Það var á þessum degi árið 1969 sem yfir 400 þúsund manns komu saman í Woodstock í Bandaríkjunum til þess að skemmta sér á samnefndri tónlistarhátíð. Margar helstu goðsagnir tónlistarheimsins komu þar fram en þeirra á meðal má nefna Jimi Hendrix, Janis Joplin og Neil Young.

Hátíðin átti upphaflega að fara fram í bænum Woodstock. Íbúar bæjarins vildu hins vegar ekki sjá að tónlistarhátíðin færi þar fram og var skipuleggjendum gert að færa tónleikana á síðust stundu. Fyrir valinu varð 240 hektara akur í Bethel í New York ríki um 70 kílómetra suðvestur af Woodstock.

Tónleikarnir fóru þó ekki fram án vandkvæða. Girðingar voru rifnar niður og aðgöngumiðar urðu gagnslausir. Mikil umferð kom í veg fyrir að fólk komst á staðinn, úrhellis rigning gerði akurinn að einu drullusvaði og mikil eiturlyfjaneysla var meðal gesta.

Mikil óánægja var meðal íbúa svæðisins eftir að tónleikunum lauk og ráku íbúar Bethel starfsmanninn sem leyfði tónleikahaldið. Tilraunir voru gerðar til að halda fólki frá svæðinu þegar til stóð að halda tónleika þar síðar.

Um 20 þúsund komu þar saman árið 1989 til að fagna 20 ára afmæli hátíðarinnar. Árið 1994 voru haldnir 25 ára afmælistónleikar sem heppnuðust mjög vel.

Til stóð að halda þar afmælistónleika í ár en vegna skorts á fjármagni var hætt við það en frítt átti að vera á tónleikana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×