Innlent

Tætir í sig rök ríkisstjórnarinnar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir að Bretar hafi beitt sér gegn Íslandi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þar með misbeitt stöðu sinni innan AGS. Þetta kemur fram í minnisblaði til utanríkismálanefndar Alþingis. Formaður Framsóknarflokksins segir að í minnisblaðinu tæti hún í sig grunnstoðirnar í málflutningi ríkisstjórnarinnar í Icesave málinu.

Ingibjörg Sólrún dregur upp mynd af því sem gerðist bak við tjöldin í harðri milliríkjadeilu Íslendinga við Breta og Hollendinga í minnisblaði til utanríkismálanefndar Alþingis. Hún segir að í stað þess að efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem undirrituð var í október í fyrra, fengi eðlilega afgreiðslu hafi ferlið verið teppt án viðvarana og hreinskiptni.

Í minnisblaðinu víkur Ingibjörg Sólrún að harkalegum aðgerðum Breta í fyrrahaust sem hún segir hafa leitt til ómælds tjóns. Allan nóvember hafi Ísland háð eina hörðustu milliríkjadeilu í sögu sinni. Í minnisblaðinu segir að þáverandi ríkisstjórn hafi haft áreiðanlegar heimildir fyrir því á þeim tíma að Bretar beittu sér gegn Íslandi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það hafi síðan reynst raunin. Bretar hafi til dæmis gert kröfu um að inn í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda til framkvæmdastjórnar AGS yrði bætt tilvísun um Icesave samningaviðræðurnar.

Með því töldu þáverandi stjórnvöld að Bretar væru að misbeita stöðu sinni mjög innan AGS. Þá segir Ingibjörg í minnisblaðinu að Brussel viðmiðin, sem samþykkt voru í nóvember í fyrra, hafi verið kjarni Icesave málsins fyrir Íslendinga því þau hafi fært inn í forsendur samningaviðræðna tillit til erfiðra og fordæmalausra aðstæðna okkar. Hún segir að viðmiðin hafi markað nýtt upphaf í Icesave deilunni og segir ennfremur að þó að þau feli í sér pólitíska skuldbindingu þá skuldbindi þau Ísland ekki með neinum hætti ef ný stjórnvöld vilji hafa þau að engu.

„Hún í rauninni tætir í bara í sig grunnstoðirnar í málflutningi ríkisstjórnarinnar í þessu máli," segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.

Sigmundur veltir því upp hvort ekki sé hægt að skipa nefnd þingmanna úr öllum flokkum undir forystu Ingibjargar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×