Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Hver er þessi skilanefndar-Lárus

Valur Grettisson skrifar
Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans.
Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans.

Formaður skilanefndar Landsbankans, Lárus Finnbogason, gegndi stjórnarformennsku í Fjármálaeftirlitinu frá 1. janúar árið 2007 þangað til Jón Sigurðsson tók við embættinu eftir bankahrun 2008. Þá hafði Lárus setið sleitulaust í stjórn Fjármálaeftirlitsins frá 1999 þegar eftirlitið var stofnað.

Þá var hann tilnefndur af Finni Ingólfssyni þáverandi viðskiptaráðherra.

Það var Valgerður Sverrisdóttir, fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins, sem skipaði hann sem stjórnarformann eftirlitsins árið 2007.

Lárus er ekki algjörlega ókunnugur Framsóknarflokknum en síðast kom fram að hann hefur verið endurskoðandi fyrir fyrirtækið Reykjavík Invest sem er í eigu Dr. Arnars Bjarnasonar. Það fyrirtæki hugðist kaupa 2,6 prósentu hlut stofnfjárbréfa í Byr örfáum dögum fyrir aðalfund bankans.

Eftir að fréttir Stöðvar 2 sagði frá því að Lárus væri endurskoðandi Reykjavík Invest kom skilanefndin saman og voru viðskiptin stöðvuð í kjölfarið.

Að lokum sagði skilanefndin að það hefði verið Eggert Páll Ólason yfirlögfræðingur skilanefndarinnar, áður þekktur sem vinur einkabílsins, sem hefði farið fram úr sér sjálfum.

Í kjölfarið var eignarhaldsfélagið tekið af lista stofnfjárbréfaeiganda Byrs og missti þar af leiðandi atkvæðarétt á aðalfundi bankans.

Dr. Arnar Bjarnason, sem á Reykjavík Invest, situr í málefnanefnd miðstjórnar Framsóknarflokksins og er sagður hafa verið náinn trúnaðarmaður Guðna Ágústssonar, fyrrum ráðherra Framsóknarflokksins.

Tengsl þeirra félaga, Arnars og Lárusar, enda ekki þar, því Lárus var einnig endurskoðandi fyrirtæksins Reykjavík Capital sem aftur var í eigu Arnars Bjarnarsonar. Það fyrirtæki endaði í eigu Sparisjóðs Mýrarsýslu sem nú er í greiðslustöðvun.

Lárus var endurskoðandi fyrir fjölmörg fyrirtæki en meðal þeirra var til að mynda eignarhaldsfélagið Skaftáreldar ehf. Eigandi þess er Jón Helgason, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins og þingmaður á Suðurlandi. Það fyrirtæki komst síðast í fréttirnar í mars þegar það framleiddi stuttmynd um móðuharðindin.

Annar Framsóknarmaður sem Lárus endurskoðaði fyrir var hæstaréttalögmaðurinn Jón Sveinsson. Hann var formaður einkavæðinganefndar á sínum tíma. Jón á fyrirtækið T-11 ehf. Áður var Jón aðstoðarmaður Steingríms Hermannssonar, fyrrum forsætisráðherra Framsóknarflokksins.

Þess má til gamans geta að eignarhaldsfélagið T-11 deilir sama heimilsfangi og félagið Vinir Denna sem eru félagasamtök. Slík samtök eru oft notuð til þess að afla styrkja fyrir frambjóðendur og halda úti kosningabaráttum.

Að lokum þá var Lárus endurskoðandi eignahaldsfélagsins HIK ehf. Það félag er í eigu annars fyrrverandi framsóknarráðherra, það er að segja Finns Ingólfssonar, þess sama og tilnefndi Lárus upphaflega í stjórn fjármálaeftirlitsins árið 1999.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×