Innlent

Bankarnir þurfa ekki að auglýsa eignir

Nýju ríkisbankarnir þurfa ekki að auglýsa eignir sem þeir hafa tekið yfir og geta í raun selt hverjum sem er, hvenær sem er.

Lög um opinber innkaup, sem gilda um kaup og sölu ríkiseigna, gilda ekki um sölu eigna nýju bankanna, Landsbankans, Nýja Kaupþings og Íslandsbanka.

Samkvæmt reglugerð um ráðstöfun eigna ríkisins eru það Ríkiskaup sem bjóða eignir til sýnis og sölu með opinberri auglýsingu. Eignir bankanna verða því ekki seldar með þessum hætti, þrátt fyrir að um ríkisbanka sé að ræða.

Þannig getur Landsbankinn, sem hefur tekið yfir mörg verðmæt fyrirtæki í gegnum dótturfélagið Vestia, í raun selt fyrirtæki eins og Vodafone og Húsasmiðjuna þegar bankanum hentar. Forsvarsmenn Vestia og bankastjórinn, Ásmundur Stefánsson, hafa þó sagt að eignir félagsins verði ekki seldar nema í opnu og gagnsæju útboðsferli. Það er hins vegar ekkert í settum lögum sem skyldar bankann til að athafna sig með þeim hætti og því ekki sama aðhald til staðar og ef um væri að ræða sölu almennra ríkiseigna.

Með sama hætti getur Nýja Kaupþing selt Haga þegar bankanum hentar, þeim sem bankanum hentar. Stjórnvöld hafa þó gert kröfu um gagnsæ vinnubrögð við sölu eigna, án þess þó að lög setji bönkunum skorður í þessum efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×