Viðskipti innlent

Kröfuhafar Kaupþings vilja forðast verðmat FME

Kröfuhafar Kaupþings vilja forðast að byggja eingöngu á þeirri aðferðafræði sem lögð er til í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins (FME) við verðmat á eignum sem fluttar eru yfir í Nýja Kaupþing, enda sé slíkt háð ýmsum forsendum sem deila megi um.

Þetta kemur fram í skýrslu skilanefndar Kaupþings sem nú hefur verið gerð aðgengileg á íslensku á heimasíðu bankans www.kaupthing.com. Þar segir einnig að kröfuhafar vilji skoða vandlega að hugsanleg hækkun á verðmæti eigna í Nýja Kaupþingi ætti að mestu leyti að skila sér til kröfuhafa.

Tvennt annað er nefnt til sögunnar í kafla um hugmyndir að endurskipulagningu bankans. Annarsvegar að ef stjórnvöld greiða eigið fé inn í Nýja Kaupþing ætti að líta til þess að hugsanleg hækkun á verðmæti eignanna skili sér með einhverju móti bæði til kröfuhafanna og stjórnvalda.

Hinsvegar að áhætta kröfuhafanna gagnvart Nýja Kaupþingi ætti að mestu leyti að vera í formi almennra skuldabréfa.

„Kröfuhafar hafa lagt áherslu á mikilvægi þess að skilanefndin gæti hagsmuna þeirra í því úttektarferli sem nú fer fram", segir í skýrslunni. „Skilanefndin hefur að beiðni fulltrúa kröfuhafa skipað Morgan Stanley sem ráðgjafa í þessu ferli til að koma með hugmyndir og tillögur um úrlausnir í málum er varða Nýja Kaupþing og endurskipulagningu Kaupþings."

Skilanefndin og Morgan Stanley hafa í samræðum sínum við kröfuhafa komist að því að þeim síðarnefndu finnst ýmislegt athugavert við tillöguna sem FME lagði fram í upphafi, þegar það gaf út ákvörðun sína um ráðstöfun eigna og skulda, þar sem kröfuhafar áttu að fá skuldabréf á móti óhjákvæmilegum flutningi hreinna eigna til Nýja Kaupþings, og hafa sagt að skoða bera aðra kosti varðandi eignarhald Nýja Kaupþings.

Nokkrar hugmyndir hafa verið skoðaðar sem lúta að því að Nýja Kaupþing greiði gamla bankanum ekki fyrir eignirnar með skuldabréfi og að íslenska ríkið verði ekki eini eigandi Nýja Kaupþings. Vinna Morgans Stanley við endurskipulagningu bankans, og þar með tengsl hans við Nýja Kaupþing, sem framkvæmd er á vegum skilanefndarinnar er á frumstigi.

Nokkrar vinnutillögur hafa verið gerðar þar sem haft er að leiðarljósi það sem þegar hefur komið fram, að íslenska ríkið og kröfuhafar njóti gagnkvæms ávinnings. Markmiðið er að finna lausnir sem eru ásættanlegar fyrir alla viðkomandi aðila, bæði íslenska og erlenda kröfuhafa, íslenska ríkið sem eiganda Nýja Kaupþings og Fjármálaeftirlitið.

Skilanefndin og aðstoðarmaður í greiðslustöðvun telja að það þjóni ekki einungis hagsmunum Kaupþings og kröfuhafa bankans að finna lausn, heldur einnig hagsmunum Nýja Kaupþings, íslenska ríkisins og öllum almenningi í landinu. Vinsamlegt samkomulag við kröfuhafa Kaupþings gæti verið mikilvægur liður í því að koma á eðlilegum bankaviðskiptum milli Íslands og alþjóðasamfélagsins.

Afstaða kröfuhafa, markmið til enduruppbyggingar, sem og fyrstu drög að tillögum um endurskipulagningu hafa verið kynnt fyrir ýmsum fulltrúum stjórnvalda, að því er segir í skýrslunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×