Viðskipti innlent

Mikil umframeftirspurn eftir E-Farice bréfum

Saga Capital Fjárfestingarbanki lauk í dag við að selja skuldabréf E-Farice ehf. fyrir alls 5 milljarða króna. Skuldabréfin voru seld í lokuðu skuldabréfaútboði á innlendum verðbréfamarkaði og var mikil umframeftirspurn eftir bréfunum.

Um er að ræða skuldabréf til 25 ára með einfaldri ábyrgð ríkissjóðs.

 

Ómar Sigtryggsson, framkvæmdastjóri Markaðsviðskipta Saga Capital, segir í tilkynningu að þessi mikla eftirspurn sýni að skuldabréfamarkaðurinn sé að rétta úr kútnum. ,,Í núverandi árferði skiptir það fyrirtæki öllu máli að geta sótt sér lán á sanngjörnum kjörum. Þetta eru því sannarlega jákvæðar fréttir sem benda til þess að eftirspurn eftir skuldabréfum í traustum fyrirtækjum sé að aukast," segir Ómar.

Saga Capital Fjárfestingarbanki annaðist bæði umsjón og sölu bréfanna og mun skrá þau í Kauphöll Íslands, NASDAQ OMX Nordic Exchange. Bankinn hefur að undanförnu verið leiðandi á markaði í sölu skuldabréfa fyrir íslensk sveitarfélög og opinbera aðila og hefur haft umsjón með sölu skuldabréfa fyrir Kópavogsbæ, Árborg, Norðurþing, Fljótsdalshérað og Byggðastofnun.

Með skuldabréfasölunni er E-Farice að sækja sér fé til að fjármagna lagningu DANICE sæstrengsins á milli Íslands og Danmerkur. DANICE er mikilvægur hlekkur í uppbyggingu á stöðugu og góðu gagnasambandi á milli Íslands og meginlandsins og mun verulega auka áreiðanleika og flutningsgetu útlandasambanda og nettenginga landsmanna.

Strengurinn er jafnframt ein meginforsenda þess að hægt verði að byggja upp alþjóðleg gagnaver hér á landi. E-Farice hefur nú þegar undirritað samninga við Verne Holding, sem er að byggja gagnaver á Keflavíkurflugvelli og á í viðræðum við fleiri slíka aðila.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×