Viðskipti innlent

Raungengi krónunnar hækkar áfram

Raungengi íslensku krónunnar nú í október hækkaði annan mánuðinn í röð frá fyrri mánuði, eða um 0,2% á mælikvarða hlutfallslegs verðlags. Á sama tíma lækkaði nafngengi krónunnar um 0,8%, m.v. vísitölu meðalgengis, en vísitala neysluverðs hér á landi hækkaði um ríflega 1%.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að hækkun raungengisins skrifast því á vísitölu neysluverðs þ.e. að verðbólgan hér á landi hafi verið umfram verðbólgu í helstu viðskiptalöndunum. Það var Seðlabanki Íslands sem birti tölur um raungengi í gær.



Við útreikning á raungengi krónunnar eru breytingar á nafngengi krónu leiðréttar fyrir hlutfallslegum breytingum verðlags og launa hérlendis og í viðskiptalöndum okkar. Er raungengi krónunnar nú afar lágt í sögulegu samhengi og þá hvort sem tekið er mið af hlutfallslegu verðlagi eða hlutfallslegum launakostnaði.

Þannig mældist raungengi m.v. verðlag á þriðja fjórðungi þessa árs 67,1 stig, en til samanburðar hefur raungengið að meðaltali verið 98 stig frá árinu 1980. Lætur því nærri að hlutfallslegt verð á neysluvörum og þjónustu hér á landi m.v. önnur lönd hafi verið þriðjungi lægra á þriðja ársfjórðungi þessa árs en raunin hefur verið að meðaltali síðustu þrjá áratugi.

Jafnframt má sjá af þróun raungengis m.v. launakostnað að kraftar íslenskra launþega gagnvart starfsbræðrum þeirra í helstu viðskiptalöndum okkar hafa lækkað verulega í verði. Á þann mælikvarða mældist raungengi 59,2 stig á þriðja ársfjórðungi þessa árs og er 30% lægra en á sama tímabili í fyrra og 40% undir langtímameðaltali sínu.



Af ofangreindri umfjöllun er ljóst að Ísland er ódýrt land þessa daganna sem hefur, eins og annað, kosti og ókosti í för með sér. Kostir lágs raungengis eru að það eykur samkeppnishæfni innlendra aðila hvað varðar framleiðslukostnað vöru og þjónustu og flýtir fyrir aðlögun hagkerfisins í átt að ytra jafnvægi. Þannig hjálpar það útflutningsatvinnuvegum, auk þeirri innlendu starfsemi sem á í samkeppni við innflutning. Má hér nefna að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki hafa undanfarin misseri notið góðs af lágu raungengi krónunnar þar sem kaupmáttur erlendra ferðamanna sem leggja leið sína hingað til lands er mun meiri en áður.

Á hinn bóginn finna landsmenn fyrir lágu raungengi í því hversu dýrt uppihald í utanlandsferðum er þessa daganna, mælt í krónum. Þetta hefur m.a. haft þau áhrif að landinn hefur snardregið úr utanferðum en á fyrstu níu mánuðum þessa árs hafði brottförum Íslendinga fækkað um 44% frá sama tímabili í fyrra. Jafnframt er lágt raun- og nafngengi mikill vágestur heimilanna þar sem það eykur lánsfjárkostnað þeirra, hvort sem um er að ræða gengis- eða verðtryggð lán, og skerðir kaupmátt ráðstöfunartekna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×