Viðskipti innlent

Landsbankinn sameinar útibú á tveimur stöðum

Landsbankinn hefur ákveðið að sameina útibú bankans á Höfðabakka og í Grafarholti og verður sameinað útibú starfrækt í húsnæði Grafarholtsútibús við Vínlandsleið.

Einnig hefur verið ákveðið að sameina tvö útibú bankans í sveitarfélaginu Snæfellsbæ - afgreiðsluna á Hellissandi og útibúið í Ólafsvík - með bækistöðvar á Ólafsbraut í Ólafsvík. Fyrsti starfsdagur í sameinuðum útibúum verður mánudaginn 25. maí nk.

Í tilkynningu segir að engir starfsmenn munu missa vinnu sína vegna þessara breytinga. Starfsmenn bankans á Hellissandi munu eftirleiðis þjóna viðskiptavinum sínum frá Ólafsvík. Flestir starfsmenn Höfðabakkaútibús munu einnig flytja sig í Grafarholt og þjóna áfram núverandi viðskiptavinum á nýjum stað.

Hraðbankar Landsbankans á Hellissandi og í Höfðabakka verða áfram opnir allan sólarhringinn. Engar breytingar verða á útibúanúmerum eða reikningsnúmerum viðskiptavina.

Sameinað útibú í Snæfellsbæ mun hér eftir þjóna öllum viðskiptavinum Landsbankans á vestanverðu Snæfellsnesi. Með sameiningunni verður til stærra og öflugra útibú sem mun veita viðskiptavinum sínum alhliða fjármálaþjónustu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×