Viðskipti innlent

Miklar endurbætur á leiðbeiningum um stjórnarhætti

Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Kauphöllin gáfu út í dag endurskoðaðar leiðbeiningar um stjórnarhætti fyrirtækja. Miklar endurbætur hafa verið gerðar á þessu sviði.

Í þessari 3. útgáfu leiðbeininganna er sérstaklega horft til sambærilegra leiðbeininga frá öðrum löndum og forskriftar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu.

Einnig eru fleiri og ítarlegri ákvæði í nýjum leiðbeiningum og gerðar eru ríkari kröfur til stjórnenda fyrirtækja en áður, á nær öllum sviðum.

 

 

„Skemmst er frá því að segja að þörf er á að bæta stjórnarhætti í íslensku viðskiptalífi. Markmið nýrra leiðbeininga er að stuðla að þessu markmiði. Í þessu felst meðal annars að bæta stjórnarhætti og viðskiptasiðferði, hvetja til aukinnar upplýsingagjafar til viðskiptalífsins og opnari og öflugari samskipta á milli fyrirtækis, hluthafa, viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila,"sagði Þórður Friðjónsson, forstjóri kauphallarinnar og formaður starfshóps um stjórnarhætti fyrirtækja, á blaðamannafundi í morgun.

"Leiðbeiningunum er þannig ætlað að vera þáttur í uppbyggingu trausts og gegnsæis í íslensku viðskiptalífi. Við köllum eftir víðtæku samstarfi við fyrirtæki, fjárfesta, fjölmiðla, menntastofnanir og rannsóknaraðila um fylgni við leiðbeiningarnar, en virk þátttaka allra leggur grunninn að betri stjórnarháttum,"

Á fundinum var Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra, afhent fyrsta eintak leiðbeininganna.

 

 

Gylfi sagði m.a. afar mikilvægt að samstaða myndist um að draga lærdóm af því sem miður fór. Að hans mati er íslenskt atvinnulíf á langri vegferð til bata og endurreisnar.

Gylfi sagði leiðbeiningarnar geta verið fyrsta skrefið á þeirri vegferð og tilvist þeirra væri jafnframt mikilvæg í ljósi þess að ekki væri unnt að setja lög um alla hluti og álitamál tengd atvinnurekstri.

 

 

Á fundinum voru jafnframt viðstaddir fulltrúar nokkurra þeirra aðila sem aðstoðuðu við gerð nýju leiðbeininganna, þ.m.t. fulltrúar PricewaterhouseCoopers og Eþikos miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja auk Þorkels Sigurlaugssonar framkvæmdastjóra hjá Háskólanum í Reykjavík.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×