Viðskipti innlent

Bakkavör ræðir um framlengingu á skuldabréfum til 2012

Bakkavör á nú í viðræðum við hóp innlendra fagfjárfesta og banka sem eru með um 70% af skuldum móðurfélagsins en stærstur hluti þeirra eru eigendur að skuldabréfum sem félagið hefur gefið út og skráð eru í Kauphöllinni.

Í tilkynningu segir að viðræðurnar gangi út á framlengingu á gjalddaga skuldabréfanna til 2012. Markmiðið er að allir hagsmunaaðilar njóti ávinnings væntanlegs rekstrarbata hjá Bakkavör í kjölfar viðamikilla hagræðingaraðgerða sem félagið hefur nýlokið og sem hafa gert félaginu kleift að snúa rekstrinum til betri vegar frá og með þessu ári.

Viðræðurnar ganga meðal annars út á að eigendur skuldabréfanna njóti talsvert bættra kjara. Fyrirheit Bakkavarar gagnvart eigendum skuldabréfanna er að allir aðilar fái greitt að fullu.

 

Ósk félagsins um framlengingu skuldabréfanna kemur í kjölfar samninga við lánveitendur rekstrarfélaga samstæðunnar nú í vor sem munu sjá félaginu fyrir nægjanlegri rekstrarfjármögnun til ársins 2012. Þeir samningar sýna jafnframt tiltrú og stuðning lánveitenda við starfsemi Bakkavarar.

 

Horfur í rekstri Bakkavarar eru góðar þrátt fyrir ríkjandi efnahagsaðstæður. Eins og fram kom í síðasta árshlutauppgjöri félagsins er gert ráð fyrir 15% aukningu framlegðar nú í ár og að EBITDA verði u.þ.b. 125 milljónir punda.

 

„Viðræður við fagfjárfesta ganga vel og stjórn félagsins er vongóð um að niðurstöður liggi fyrir fljótlega," segir í tilkynningunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×