Viðskipti innlent

Segir að slakað verði á gjaldeyrishöftunum í sumar

Greining Íslandsbanka segir að allt bendi nú til þess að byrjað verði að slaka á gjaldeyrishöftunum strax á sumarmánuðum en vísbendingar þess efnis hrannast nú upp.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að í fyrsta lagi kom það fram í rökstuðningi peningastefnunefndar Seðlabankans á vaxtaákvörðunarfundi bankans í síðustu viku að búast megi við umtalsverðri vaxtalækkun stýrivaxta í byrjun júní en í kjölfarið megi hinsvegar búast við hægara lækkunarferli stýrivaxta.

Þetta gefur til kynna að áætlunin sé lækka vexti umtalsvert en fara svo hægar í sakirnar á meðan slakað verði á gjaldeyrishöftum. Þegar slakað verður á höftunum mun hátt vaxtastig styðja við krónuna og varna henni falli. Í því ljósi er ekki óeðlilegt að Seðlabankinn vilji halda stýrivöxtum háum á meðan reynsla kemur á hvernig aflétting hafta muni ganga og hvaða áhrif slíkar aðgerðir muni hafa á gengi krónunnar.

Þá kom það einnig fram í nýbirtri 100 daga nýrrar ríkisstjórnar að dregið verði úr gjaldeyrishöftum sem ekki er hægt að túlka á annan veg en þann að þann 17.ágúst næstkomandi þegar 100 dagar verða liðnir verði gjaldeyrishöftin slakari en þau eru í dag sem er í samræmi við það sem komið hefur fram hjá Seðlabankanum.

Allt frá bankahruninu í haust hefur samblanda gjaldeyrishafta og hárra vaxta verið talin nauðsynlegt til að varna krónunni frekara falli. Báðar þessar aðgerðir voru nauðsynlegar vegna mikils útflæðisþrýstings sem er tilkomin vegna mikilla krónueigna erlendra fjárfesta hér á landi.

Núna hafa hinsvegar verið stigin skref í þá átt að leysa úr þessum þrýstingi sem mun skapa svigrúm til að bæði létta á höftunum og lækka vexti. Seðlabankinn er að bjóða fyrirtækjum sem hafa verulegar tekjur í erlendum gjaldeyri og eru með ný fjárfestingaverkefni á prjónunum að sækja um langtímalán í krónum en með endurgreiðslum í erlendum gjaldmiðli. Umsóknarfrestur fyrir þetta úrræði rann út í gær. Þá eru fleiri aðgerðir af þessum toga í farvatninu.

Þá segir í 100 daga áætlun ríkisstjórnarinnar að fyrir miðjan ágúst skuli mikilvægum samningum vegna erlendra eigenda krónubréfa vera lokið. Ljóst er að þessar aðgerðir haldast í hendur en það mun væntanlega velta á hversu farsællega það tekst að draga úr útflæðisþrýstingi fjármagns hversu hratt og mikið verður dregið úr gjaldeyrishöftum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×