Skoðun

Pistill: Icesave klúðrið verður skrýtnara

Friðrik Indriðason skrifar

Klúðrið í kringum Icesave samninginn verður skrýtnara með hverjum deginum sem líður og betur kemur í ljós hve bláeyg samninganefnd Íslands stóð sig illa í málinu. Það nýjasta er að Ísland á að borga fyrir lögfræði/umsýslukostnað Breta og Hollendinga. Upphæð sem nemur eitthvað á fjórða milljarð kr.

Hvaða endemis rugl er verið að bjóða þjóðinni upp á hér. Bretar og Hollendingar hafa fyrir löngu gert upp við alla innistæðueigendur Icesave reikninga í löndum sínum. Allavega voru breskir fjölmiðlar fullir af fréttum um það s.l. vetur.

Þetta var gert með því að nota Icesave-kerfið sem var til staðar. Kostnaðurinn var í mesta lagi nokkrir starfsmenn til að keyra kerfið, ekki einhverjir milljarðar kr.  Verkið tafðist að vísu eitthvað út af rugli í kerfinu.

Endurgreiðslur til Icesave-eigenda voru eitt aðalmál breskra fjölmiðla í nóvember á síðasta ári. Þær hófust upp úr miðjum þeim mánuði og var lokið uppúr áramótum. Svipaða sögu er að segja í Hollandi.

Samt kemur Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fram í fjölmiðlum og segir að fyrrgreindir milljarðar séu til að borga kostnað Breta og Hollendinga við að koma greiðslum til Icesave innistæðueigenda. Hvaða andsk. greiðslur er ráðherrann að tala um? Eigum við Íslendingar að borga þetta Landsbankakjaftæði tvisvar?

Sá grunur læðist að manni að lögmaðurinn Ragnar Hall hafi rétt fyrir sér og að þetta sé þrátt fyrir allt lögfræðikostnaður og þá væntanlega að hluta til greiðslur til samninganefndar Breta. Sú nefnd er sennilega enn að brosa að íslensku samninganefndinni sem virðist hafa kokgleypt allt sem Bretarnir lögðu fyrir framan hana. En hvort sem er mun það rétt hjá Pétri Blöndal þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem segir að þetta er eins og að borga fyrir vöndinn sem flengir mann.

Eftir á að hyggja átti íslenska samninganefndin að bjóða Bretum og Hollendinum upp á tvennt. Fá Landsbankann eins og hann lagði sig. Eða við fengjum Landsbankann, gerðum upp þessar 20.000 evrur á haus og síðan mættu Bretar og Hollendingar hirða það sem eftir var af hræinu.

Samninganefndin taldi sig að vísu að hluta til bundin af misvitrum ákvörðunum sem ríkisstjórn Geirs Haarde tók eftir bankahrunið s.l. haust. En nefndin átti að halda því stíft fram að þær ákvarðanir voru teknar undir þrýstingi og hótunum og því ekki gildar að mati núverandi stjórnvalda.

Icesave verður að gera upp með einu eða öðru móti. Nánasta framtíð landsins er í húfi. Sá samningur sem liggur fyrir gengur hinsvegar ekki. Alþingi verður að koma sér saman um fyrirvara sem sníða verstu agnúana af samningnum.










Skoðun

Sjá meira


×